Heimsmeistaramót í þungarokksprjóni

Þungarokkshljómsveitin Lordi er ein af fjölmörgum þungarokkshljómsveitum Finnlands.
Þungarokkshljómsveitin Lordi er ein af fjölmörgum þungarokkshljómsveitum Finnlands. Ljósmynd/Wikipedia

Heimsmeistaramótið í þungarokksprjóni var haldið í fyrsta skipti í gær og voru Finnar gestgjafar keppninnar. Keppendur voru vopnaðir prjónum og garni á meðan þeir dönsuðu við þungan trommu- og gítarleik. Fréttastofa AP greinir frá þessu.

Hóparnir sem kepptu báru nöfn eins og Kanínuræningjar og Níu tommu nálar en markmið  þeirra allra var það sama, að sýna fram á einstaka hæfni í prjóni á meðan þeir dönsuðu á eins sérstakan hátt og þeim var unnt við þungarokkið. Japanskur hópur, klæddur í súmóglímugöllum sigraði keppnina.

Þungarokk er ein af ríkjandi tónlistarstefnum Finnlands og festi það sig reglulega vel í sessi árið 2006 þegar finnska hljómsveitin Lordi vann Eurovision en hljómsveitin var íklædd skrímslabúningum. 

Eiginkonuburður og svampknattleikur

Skipuleggjendur hátíðarinnar segja að það sé algengt að halda undarlega viðburði sem þessa þarlendis, þar sé til dæmis haldið heimsmeistaramótið í loftgítar, svampknattleik og eiginkonuburði. 

Á mótinu komu saman keppendur frá níu löndum, þar á meðal frá Bandaríkjunum, Japan og Rússlandi. Þeir voru flestir í áberandi búningum og með ýkta sviðsframkomu.

Að lokum var ákveðið að japanski hópurinn Giga Body Metal færi með sigur af hólmi en þar stigu fjórir keppendur á stokk í súmóglímubúningum og sá fimmti í hefðbundnum japönskum kímónó. 

Heimsmeistaramótið í þungarokksprjóni gekk svo vel að ákveðið hefur verið að halda það á nýjan leik í Finnlandi að ári. 

mbl.is