Opna „beygða“ píramídann

Fornleifaráðherrann fyrir framan pýramídann.
Fornleifaráðherrann fyrir framan pýramídann. AFP

Stjórnvöld í Egyptalandi opnuðu í dag tvo forna pýramída sunnan við höfuðborgina Kaíró og sviptu um leið hulunni af fjölda steinkistna sem fundust þar nýlega, en nokkrar þeirra hafa að geyma vel varðveittar múmíur.

Khaled al-Anani, fornleifaráðherra Egyptalands, sagði við blaðamenn í dag að pýramídi konungsins Sneferu, sem var fyrsti faraóinn af fjórðu konungsætt Egyptalands til forna, væri nú opinn á ný eftir að hafa verið lokað árið 1965, ásamt öðrum pýramída til viðbótar.

Pýramídi Sneferu er jafnan þekktur sem „beygði pýramídinn“, þar sem hallinn á efri hluta hans er töluvert minni en á neðri hlutanum.

Hópur fornleifafræðinga á svæðinu hefur að sögn ráðherrans einnig fundið steinkistur og leifar eftir fornan steinvegg, frá því fyrir um fjögur þúsund árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert