Filippseyjar slíti tengslin við Ísland

Imee Marcos í kosningabaráttu fyrr á þessu ári, áður en …
Imee Marcos í kosningabaráttu fyrr á þessu ári, áður en hún varð öldungadeildarþingmaður. AFP

Imee Marcos, öldungadeildarþingmaður á Filippseyjum, vill að stjórnvöld landsins rjúfi undir eins stjórmálasamband sitt við Ísland. 

„Sterkrar yfirlýsingar er þörf, um að gildum og pólitískum stefnum annarra landa, en mörg þeirra eru þróuð ríki á borð við Ísland, geti ekki verið þröngvað upp á sjálfstætt land eins og Filippseyjar,“ segir hún í yfirlýsingu sem gefin var út í gær.

Yfirlýsingin kemur í kjölfar álykt­unar Íslands um að mann­rétt­inda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna geri ítarlega úttekt á stríði rík­is­stjórn­ar Filippseyja gegn fíkni­efn­um, sem samþykkt var í Genf á fimmtudag.

Fóstureyðingar sýni brengluð gildi ríkjanna

Átján aðildarríki kusu með ályktuninni, flest þeirra Evrópuríki. Fjórtán kusu gegn henni á meðan fimmtán sátu hjá.

Bendir Marcos á að ekki einu sinni helmingur aðildarríkja mannréttindaráðs SÞ hafi þannig kosið með ályktuninni.

Bætti hún við að sú staðreynd að fóstureyðingar séu leyfðar í þróuðum ríkjum sýni fram á brengluð gildi þeirra og tvískinnungshátt, að því er fram kemur í umfjöllun filippseyska fréttavefjarins ABS-CBN.

„Þau beina fingri sínum að Filippseyjum fyrir meint mannréttindabrot, en réttlæta samt dráp á varnarlausum og ófæddum börnum,“ segir Marcos, en hún er dóttir fyrrverandi einræðisherrans Ferdinand Marcos og konu hans Imeldu Marcos. Stjórnartíð hans einkenndist meðal annars af drápum, mannréttindabrotum ýmiss konar og stórfelldum stuldi hjónanna úr ríkissjóði landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert