Gripinn glóðvolgur og vikið úr keppni

Stórmeistarinn Igors Rausis.
Stórmeistarinn Igors Rausis. Ljósmynd/Mt7

Alþjóðaskáksambandið hefur vikið lettneska stórmeistaranum Igors Rausis úr Opna Strassborgarmótinu, eftir að hann var gripinn glóðvolgur við að nota síma sinn til að hjálpa sér í tafli.

Rausis skipar 53. sæti á heimslistanum með samtals 2.686 ELO-stig og er um leið sá elsti á listanum, en hann er 58 ára. Hann vann sér inn stórmeistaratitil árið 1992 og hefur í gegnum tíðina keppt fyrir hönd Lettlands, Bangladess og Tékklands.

Framkvæmdastjóri sambandsins, Emil Sutovsky, segir Rausis lengi hafa legið undir grun um að svindla og að afhjúpun hans sé aðeins fyrsta skrefið í áralangri baráttu gegn svindli.

Samkvæmt umfjöllun Chess.com fannst sími í klósetti sem Rausis hafði nýlokið við að nota. Skrifaði stórmeistarinn í kjölfarið undir yfirlýsingu um að síminn tilheyrði honum.

Þó engin sönnunargögn séu til um að Rausis hafi svindlað áður þá hefur hann klifrað merkilega hratt upp heimslistann á undanförnum árum, eða um 200 ELO-stig, eftir að hafa verið í kringum 2.500 ELO-stig í áratug þar á undan, segir í umfjöllun Guardian.

Sutovsky segir svindl stórmeistarans einnig hafa verið tilkynnt frönsku lögreglunni.

mbl.is