Íbúar stýrðu umferð í rafmagnsleysinu

Sólin sest með myrkvaða New York-borg í forgrunni.
Sólin sest með myrkvaða New York-borg í forgrunni. AFP

Víðtækt rafmagnsleysi varð á Manhattan-eyju í New York í gærkvöldi. Olli það meðal annars miklum töfum á samgöngum í borginni, en fólk var hvatt til að forðast neðanjarðarlestarstöðvar á meðan rafmagnsleysinu stóð.

Slökkvilið brást við mörgum útköllum vegna ástandsins, aðallega vegna fólks sem fast var í lyftum. Ljós lögreglu- og sjúkrabíla voru þá sums staðar þau ljós sem mest áberandi voru, í borg sem alla jafna skortir ekki ljósgjafa af ýmsum gerðum.

Borgarbúar virtust láta sér rafmagnsleysið í léttu rúmi liggja og gripu sumir til þess ráðs að stýra umferð um gatnamót fjölfarinna gatna borgarinnar, þar sem engin voru umferðarljós, og tónleikar sem fara áttu fram í Carnegie Hall héldu áfram fyrir utan tónleikahúsið, svo dæmi séu nefnd.

Borgarstjórinn staddur í Iowa

Rafmagn komst aftur á um klukkan tíu í gærkvöldi að staðartíma og mátti heyra lófaklapp víða um leið og borgin lýstist aftur upp.

Borgarstjórinn Bill de Blasio var í gærkvöldi staddur í Iowa-ríki vegna yfirstandandi forsetaframboðs síns, sem náð hefur litlu flugi fram til þessa. Hefur hann verið gagnrýndur fyrir að vera ekki heima við til að bregðast við rafmagnsleysinu og fór það ekki framhjá áhorfendum CNN í gær að hann var víðs fjarri því að upplifa það sjálfur.

Sagði hann rafmagnsleysið orsakast af bruna í holræsi, en sagði síðar við fréttastofu CNN að orsakirnar væru til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert