Sá stærsti sem staðinn hefur verið að verki

Á meðan Igor þóttist tefla við páfann, tefldi hann í …
Á meðan Igor þóttist tefla við páfann, tefldi hann í raun við símann. Ljósmynd/Huldumaður

Ig­ors Raus­is, lettneski skákmaðurinn sem var á dögunum gripinn glóðvolgur við að nota símann á klósettinu í miðri skák, er stærsta nafnið í skákheiminum sem hefur verið staðið að verki við slíkt svindl. Þetta segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins.

Rausis þessi sat í 53. sæti heimslistans í skák, hafði klifið hratt upp listann undanfarin ár og bætt við sig 200 Elo-stigum, sem Gunnar segir einsdæmi á þessum aldri. Rausis er 58 ára gamall og elstur manna á heimslistanum, sem inniheldur 100 færustu skákmenn heims.

Gunnar segir að vandlega sé fylgst með grunsamlegri hegðun skákmanna og því hafi Rausis um skeið verið grunaður um græsku. Nefnir hann í því skyni Kenneth Regan, bandarískan skákmann og stærðfræðing, sem starfar fyrir nefnd Alþjóðaskáksambandsins sem yfirfer allar skákir á stórmótum með það fyrir augum að koma upp um grunsamlegan leik.

Leikir skákmanna séu bornir saman við leiki sem færustu skáktölvur myndu leika, og hringja viðvörunarbjöllur ef leikir skákmanna minna um of á tölvuna. Hefur hann til að mynda yfirfarið skákir á Reykjavíkurmótinu, en aldrei hafa neinar athugasemdir verið gerðar við leik þar. Aðspurður segist Gunnar því ekki telja að símasvindl sé vandamál í íslenskri skák, en bætir við að vitanlega sé full ástæða til að hafa varann á.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands. mbl.is/Ómar

Gripinn á klósettinu

Igors Rausis hefur játað á sig svindlið eftir að mynd náðist af honum við verknaðinn. Ljósmyndarinn hefur ekki gefið sig fram og mun sennilega aldrei gera, enda gróft brot á friðhelgi einkalífs að taka myndir af fólki á salerni, hvað þá í höfuðborg mannréttindasáttmála Evrópu, Strassborg. Gunnar telur að myndin hafi sennilega verið tekin með röri, en Alþjóðaskáksambandið hefur neitað því að hafa nokkuð með myndatökuna að gera.

Heimilt er að fara á klósettið í skák, en á meðan tifar klukkan og því forðast menn það jafnan eins og heitan eldinn. Þykir því grunsamlegt ef menn bregða sér um of á klósett.

Rausis hefur gefið það út að hann setjist nú í helgan stein, en Gunnar telur að málið verði engu að síður tekið fyrir dóm. Á hann von á að Rausis verði settur í ævilangt keppnisbann og mögulega sviptur stórmeistaratitlinum, sem hann telur þó að Rausis hafi unnið sér inn heiðarlega á löngum ferli áður en svindlið hófst.

„Menn vilja skapa fordæmi og sýna að þetta sé ekki boðlegt. Þá verða þeir að vera harðir.“

mbl.is