4 börn stálu bíl og fóru í ferðalag

Lögregla telur líklegt að börnin hafi skipst á að aka …
Lögregla telur líklegt að börnin hafi skipst á að aka bílnum. Kort/Google

Fjögur börn á aldrinum 10-14 ára stálu fjórhjóladrifnum bíl og höfðu lagt að baki rúmlega 1.000 km langt ferðalag um óbyggðir Ástralíu þegar lögregla stöðvaði för þeirra.

AFP-fréttaveitan segir ferðalag barnanna, 10 ára stúlku, tveggja 13 ára drengja og eins 14 ára drengs, hafa hafist á laugardag þegar þau stálu bíl með lausafé og veiðistöngum sem var í eigu fjölskyldu eins þeirra. Fjölskyldurnar eru búsettar í strandbænum Rockhampton í Queensland.

Eitt barnanna skildi eftir miða þar sem það greindi fjölskyldu sinni frá áætluninni. Það sást svo til bílsins í bænum Banana í óbyggðum Ástralíu á sunnudagsmorgun, en þar stálu börnin bensíni áður en þau héldu för sinni áfram.

Bíllinn fannst svo á sunnudagskvöld í nágrenni Grafton, sem er í um 11 klukkustunda akstursfjarlægð frá Rockhampton. Þar urðu lögreglumenn að beita valdi til að komast inn í bílinn eftir að börnin neituðu að fara út.

„Þau höfðu læst sig inni í bílnum og lögreglumenn urðu að nota kylfur til að komast inn í hann og handtaka þau,“ sagði Darren Williams starfandi lögreglustjóri í Coffs-Clarence.  Ekki lá fyrir hvert barnanna var við stýrið, en Williams sagði líklegt að þau hefðu skipst á að aka.

„Það er löng leið, rúmir 1.000 km, frá Rockhampton til Grafton,“ sagði hann. „Ég get ekki ímyndað mér að einn einstaklingur hafi ekið þá leið á tveimur dögum.“

Lögregla er nú með til rannsóknar nokkur brot sem börnin eru talin hafa framið á ferð sinni. Þau voru hins vegar heil á húfi og eru í umsjá barnaverndaryfirvalda.

Að sögn Williams liggur ekki fyrir hvers vegna börnin lögðu í þessa langferð, en einn drengjanna er upprunalega frá Grafton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert