Fögnuðurinn endaði í fangaklefa

Stuðningsmenn alsírska liðsins fagna hér á Champs-Elysee breiðgötunni í gærkvöldi.
Stuðningsmenn alsírska liðsins fagna hér á Champs-Elysee breiðgötunni í gærkvöldi. AFP

Alls voru 282 handteknir í Frakklandi í kjölfar fagnaðarláta sem brutust út í gærkvöldi þegar alsírska landsliðið í fótbolta tryggði sér sæti í úrslitum Afríkubikarsins.

AFP-fréttaveitan segir fagnaðarlæti, sem í sumum tilfellum voru óhófleg, hafi brotist út víða um land í kjölfarið. Að sögn franska innanríkisráðuneytisins var þó í einhverjum tilvikum einnig um að ræða atvik vegna skemmtana tengdum Bastilludeginum, sem Frakkar héldu hátíðlegan í gær.

Hamslaus fagnaðarlæti brutust út í borgunum París, Marseille og Lyon og voru 50 m.a. handteknir í París, en til ryskinga kom milli fótboltaunnenda og lögreglu á Champs-Elysees-breiðgötunni. Þá var kveikt í tugum bíla í Lyon í nótt.

Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, þakkaði lögreglu og slökkviliði í dag skjót viðbrögð og fagmennsku vegna ofbeldisins og því að tekist hafði að hafa hendur í hári gerendanna.

Af þeim 282 sem voru handteknir voru 249 enn í haldi lögreglu nú í morgun.

Stuðningsmenn alsírska liðsins gengu berserksgang í miðborg Parísar sl. fimmtudag þegar Alsír vann lið Fílabeinsstrandarinnar.

Innflytjendur af alsírskum uppruna eru fjölmennir í París og Marseille og hefur áður komið til átaka vegna stuðningsmanna liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert