Gera pólitískt hæli nánast ófáanlegt

Reglugerðin kveður á um að hverjum sem ekki hefur sótt …
Reglugerðin kveður á um að hverjum sem ekki hefur sótt um pólitískt hæli í öðru landi áður en komið er til Bandaríkjanna verði synjað um pólitískt hæli í Bandaríkjunum. AFP

Ráðamenn í Hvíta húsinu hafa gefið út nýja reglugerð sem gerir það nánast ómögulegt fyrir farandfólk, sem kemur til Bandaríkjanna yfir landamærin að Mexíkó, að fá pólitískt hæli í landinu.

Reglugerðin, sem tekur gildi á morgun, þriðjudag, er nýjasta tilraun Bandaríkjastjórnar til þess að stemma stigu við stöðugum straumi flóttafólks frá löndum Mið- og Suður-Ameríku til Bandaríkjanna, og kveður á um að hverjum sem ekki hefur sótt um pólitískt hæli í öðru landi áður en komið er til Bandaríkjanna verði synjað um pólitískt hæli í Bandaríkjunum.

Fólk sækir gjarnan um pólitískt hæli í Bandaríkjunum til þess að ná þar fótfestu, en umsækjendur eru frjálsir ferða sinna innan Bandaríkjanna í allt að tvö ár á meðan umsókn þeirra er tekin fyrir.

Margir láta sig hins vegar einfaldlega hverfa í fjöldann og mæta aldrei fyrir dóm þegar umsókn þeirra hefur verið tekin fyrir.

Reglugerðin er nýjasta tilraun Bandaríkjastjórnar til þess að stemma stigu …
Reglugerðin er nýjasta tilraun Bandaríkjastjórnar til þess að stemma stigu við stöðugum straumi flóttafólks frá löndum Mið- og Suður-Ameríku til Bandaríkjanna. AFP

„Bandaríkin eru rausnarlegt land en eru gjörsamlega ofurliði borin vegna álagsins sem hlýst af viðtöku og skráningu hundruða þúsunda útlendinga við suðræn landamæri landsins,“ segir í yfirlýsingu frá dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Bill Barr, vegna reglugerðarinnar.

Kevin McAleenan, tímabundinn heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, segir að um bráðabirgðareglugerð sé að ræða, enda hafi allar tilraunir löggjafa í landinu til að hindra aðsókn flóttafólks mistekist hingað til. „Þar til þingið getur brugðist við mun þessi bráðabirgðareglugerð draga verulega úr óreglulegum landflutningum til Bandaríkjanna, og leiða færri einstaklinga þessa hættululegu leið í gegnum Mexíkó.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert