Heyrði þegar allt varð hljótt

Úr myndbandi Axel Pettersson. Í því má sjá hvernig flugvélin …
Úr myndbandi Axel Pettersson. Í því má sjá hvernig flugvélin steypist beint niður til jarðar úr mikilli hæð. Skjáskot/VG

Hann veifaði til vina sinna og tók sjálfur á loft í sinni vél. Klukkustund síðar hafði vél vinar hans hrapað og hann var beðinn um að nálgast slysstað til að bera kennsl á hana. Aftonbladet tekur viðtal við vin og samstarfsfélaga flugmanns vélarinnar sem hrapaði í Svíþjóð í gær, þegar 9 létust.

„Þetta var súrrealískt. Eina stundina voru þeir í fjögurra kílómetra hæð og þá næstu höfðu þeir lent. Það passaði bara ekki,“ segir flugmaðurinn, sem lætur nafns síns ekki getið. Hann er sjálfur vanur að fljúga vélinni sem hrapaði en þennan örlagaríka dag flaug hann annarri vél. 

Hann tók á loft á sama tíma og vinir hans. Um klukkustund síðar ræddi hann við þá í talstöðinni. Þá voru fallhlífastökkvararnir að búa sig undir að stökkva út úr vélinni. Þeir voru átta ásamt flugmanninum. Flugmaðurinn sem er til viðtals segir þá að hann hafi sagt þeim að gjöra svo vel, hann yrði ekki fyrir.

Svo varð allt hljótt í talstöðinni.

Þar til hann var af yfirvöldum beðinn um að mæta og bera kennsl á slysstað. Flugvélin hafði skollið í jörðina eftir fall úr fjögurra kílómetra hæð, á norðanverðri eynni Storskandskär utan við Umeå í Aust­ur-Svíþjóð. Fallið var alveg lóðrétt, þannig að vélin virðist hafa snarhætt að ganga í mikilli hæð. Myndbönd sýna hvernig flugvélin steypist beint niður á við.

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur hafið störf á vettvangi slyssins og verið er að ræða við vitni á svæðinu. Ekkert liggur enn fyrir um orsakir þess að vélin hrapaði.

Hlutar úr vélinni fluttir af slysstað. Ljóst var frá upphafi …
Hlutar úr vélinni fluttir af slysstað. Ljóst var frá upphafi að engin von væri um mannbjörg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert