Monsún-rigningar valda mannskæðum flóðum

Íbúar borgarinnar Katmandú í Nepal horfa hér á ána Balkhu …
Íbúar borgarinnar Katmandú í Nepal horfa hér á ána Balkhu sem hefur flætt yfir bakka sína. AFP

Tugir manna hafa undanfarið farist í flóðum vegna monsúnrigninga í Nepal, Bangladess og norðausturhluta Indlands. BBC segir 65 manns hið minnast hafa farist í Nepal vegna úrhellisrigninga, 30 til viðbótar sé saknað í flóðum og aurskriðum í landinu og vitað er til þess að 38 hafi slasast.

Flóðin hafa þegar haft áhrif á milljónir manna í löndunum þremur og hefur lögregla í Nepal t.a.m. bjargað 1.400 manns frá því að miklar rigningar hófust þar sl. fimmtudag.

Flóðin og rigningarnar hafa einnig valdið dauðsföllum í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess, en rúm milljón rohingja hefur hafst við í flóttamannabúðum í Cox Bazar frá því búrmíski herinn hóf aðgerðir sínar gegn þessum minnihlutahópi. Rúmlega 585 mm af regni hafa fallið á svæðinu það sem af er þessum mánuði samkvæmt veðurstofu Bangladess.

Hundruð aurskriður hafa fallið í búðunum frá því í apríl og hafa þær kostað að minnsta kosti 10 manns lífið til þessa.

Áin Brahmaputra, sem rennur í gegnum Indland, Bangladess og Kína, hefur flætt yfir bakka sína og valdið flóðum í rúmlega 1.800 þorpum og bæjum í Assam-fylkinu á Indlandi að því er Reuters-fréttaveitan greindi frá í dag. Hefur um ein og hálf milljón manna hrakist frá heimilum sínum vegna þessa og vitað er til þess að 10 hafi farist.

Búist er við áframhaldandi úrkomu næstu daga.

Flóð á götum Dhaka, höfuðborgar Bangladess.
Flóð á götum Dhaka, höfuðborgar Bangladess. AFP
Átta fórust þegar þetta hús hrundi í aurskriðu í Kumarhatti …
Átta fórust þegar þetta hús hrundi í aurskriðu í Kumarhatti á Indlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert