Brexit ræðst í Dublin

Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir mikilla stefnubreytinga ekki …
Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir mikilla stefnubreytinga ekki að vænta með skipan Ursulu von der Leyen. mbl.is/Hari

Ekki er von á að skipan Ursulu von der Leyen í embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB hafi í för með sér miklar stefnubreytingar hjá Evrópusambandinu, hvorki í málefnum sambandsins sjálfs né í samningaviðræðunum um útgöngu Breta. Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.

Starf forsetans sé miklu meira frekar „samræmingarstarf málamiðlara“ heldur en hefðbundið hlutverk leiðtoga ríkisstjórnar. „Ég held að allir sem fylgjast eitthvað með stjórnmálum Evrópusambandsins viti að raunverulega valdið liggur þegar uppi er staðið hjá leiðtogum aðildarríkjanna.“

Reipitog þjóðríkis og lýðræðissinna

Eiríkur segir Evrópusamstarfinu fylgja sífellt reipitog milli þeirra sem vilja auka veg beins lýðræðis með auknu valdi samevrópskra stofnana, stuðningsmanna Evrópusamruna, og þeirra sem vilja halda völdunum í höndum þjóðríkjanna. Aukið beint lýðræði innan ESB og valdaframsal til stofnana þess feli í sér minni áhrif aðildarríkjanna á sambandið. 

Eilíft reipitog er milli þeirra sem vilja auka veg Evrópusamstarfsins …
Eilíft reipitog er milli þeirra sem vilja auka veg Evrópusamstarfsins og þeirra sem vilja halda völdum í höndum aðildarríkja, segir Eiríkur. AFP

Ursula von der Leyen hefur í gegnum tíðina verið ötull talsmaður Evrópusamstarfsins og sér fyrir sér evrópskt sambandsríki að bandarískri og svissneskri fyrirmynd, þar sem sambandið fer til að mynda með æðstu stjórn skattamála og fjárlaga, en þó þannig að aðildarríkjum sé gefið visst svigrúm í þeim efnum. Þá vill hún hraða áformum um stofnun Evrópuhers.

Eiríkur telur þó ekki að mikilla breytinga sé að vænta á þessum sviðum á næstunni. Bendir hann á að forsetar framkvæmdastjórnarinnar hafi í gegnum tíðina verið miklir bandalagssinnar (e. federalists). Nefnir hann í því skyni Frakkann Jacques Delors, sem gegndi embættinu frá 1985 til 1995. Í valdatíð hans var þó stórt skref stigið í átt að upptöku sameiginlega gjaldmiðilsins, evrunnar. Þá sé Jean-Claude Juncker, fráfarandi forseti, einnig mikill bandalagssinni en sú skoðun hafi ekki litað stefnu Evrópusambandsins mikið undanfarin ár.

Stofnað til að taka á vandamálum

Eiríkur rifjar upp að Evrópusambandið hafi verið stofnað til að taka á risavöxnum vandamálum sem steðjuðu að „okkar hrjáðu álfu“. Með tilkomu þess hafi vinna við þau verið færð í hendur allra aðildarríkja í stað þess að stóru ríkin taki ein ákvarðanirnar og kúgi þau minni, með afleiðingum sem flestum ættu að vera kunnar.

Það sé því sambandinu í blóð borið að takast á við krefjandi verkefni. „Annars hefði það engan tilgang.“ Enginn hörgull hefur verið á slíkum undanfarin ár og nefnir Eiríkur flóttamannavandann, sem hafi bitnað harðast á ESB af vestrænum ríkjum, fjármálakrísuna og auðvitað útgöngu Breta, sem hafi litað kjörtímabil fráfarandi forseta, Jean-Claude Juncker. „Það hefur ekkert rými gefist til að endurskipuleggja sambandið á meðan,“ segir Eiríkur og vísar þá til fyrra spjalls um aukinn Evrópusamruna.

Federica Mogherini, utanríkisstjóri ESB, (t.v.) óskar Ursulu von der Leyen …
Federica Mogherini, utanríkisstjóri ESB, (t.v.) óskar Ursulu von der Leyen til hamingju með staðfestinguna, að atkvæðagreiðslu lokinni í Strassborg í dag. AFP

Þótt Eiríkur telji ekki útlit fyrir að sambandið standi frammi fyrir jafnstórum eða stærri verkefnum á næstu árum ítrekar hann þó að stórra skrefa í átt að sambandsríki sé ekki að vænta.

Um Brexit semst í Dublin

Ursula von der Leyen sagði á Evrópuþinginu í morgun, áður en atkvæði voru greidd um tilnefningu hennar, að hún væri tilbúin að gefa Bretum lengri frest til útgöngu en 31. október, eins og nú stendur til.

Eiríkur telur þó að þetta sé engin stefnubreyting frá Juncker. „Evrópusambandið sjálft hefur hingað til verið reiðubúið til að fresta útgöngunni,“ segir hann og bætir við að litlu skipti fyrir það hvenær nákvæmlega Bretar ganga út. Það skipti Breta meira máli.

Við það bætir hann að ákvörðun um útgöngusamning, fyrir hönd ESB, sé á endanum í höndum leiðtogaráðsins. Þar hafi sumir leiðtogar lagst harðlega gegn framlengingu á útgönguferlinu, til að mynda Emmanuel Macron Frakklandsforseti.

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðunum um útgöngu Breta, ásamt …
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðunum um útgöngu Breta, ásamt Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. Eiríkur segir að nýr forsætisráðherra Breta þurfi að vinna Varadkar á sitt band eigi að gera breytingar á fyrirliggjandi útgöngusamningi. AFP

„Það er stundum eins og forystumenn Breta átti sig ekki alveg á eðli bandalagsins,“ segir Eiríkur. Í samningaviðræðunum um Brexit hafi helsta þrætueplið verið fyrirkomulag landamæranna á Írlandi, og viðskipti þar um, hið svokallaða backstop

„ESB virkar þannig að það gætir hagsmuna aðildarríkja og í þessu máli eru það Írar sem hafa mestra hagsmuna að gæta. Þannig verður afstaða Íra að afstöðu Evrópusambandsins. Theresa May og skósveinar hennar hafi varið alltof miklum tíma í Brussel og Berlín að sannfæra leiðtoga þar um ágæti sjónarmiða sinna, en í raun séu það yfirvöld í Dublin sem fari með stjórn mála, og þau þurfi að sannfæra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert