Ákærður fyrir morð á sonum sínum

Atvikið átti sér stað fyrir fjórum árum.
Atvikið átti sér stað fyrir fjórum árum. Kort/Google

Karlmaður, búsettur í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, hefur verið ákærður fyrir morð eftir að tveir einhverfir synir hans létust þegar hann keyrði bíl fram af bryggju. Maðurinn ætlaði sér að svíkja út tryggingafé en atvikið átti sér stað fyrir fjórum árum.

Synir Ali Elmezayen, sem voru þrettán og átta ára, sátu í sætisbeltum í aftursæti bílsins og drukknuðu þegar bíllinn lenti í sjónum úti fyrir Los Angeles. 

Eiginkona Elmezayen, Raba Diab, var líka í bifreiðinni og hefur hann einnig verið ákærður fyrir að hafa reynt að myrða hana. Sjómaður kom henni til bjargar en sjálfur komst Elmezayen út um glugga og synti til lands.

Elsti sonur Diab og Elmezayen var sá eini úr fjölskyldunni sem ekki var í bílnum.

Elmezayen á einnig yfir höfði sér ákæru vegna tryggingasvika í tengslum við atvikið.

Hann sagði rannsakendum að hann vissi ekki hvers vegna hann hefði keyrt fram af bryggjunni. Hann hefði hugsanlega óvart ýtt á bensíngjöfina í stað bremsunnar eða „djöfull innra með mér neyddi mig til að gera þetta,“ eins og hann orðaði það.

Samkvæmt dómskjölum fékk hann rúmlega 260 þúsund dollara frá tryggingum eftir atvikið.

Elmezayen, sem er egypskur ríkisborgari, sendi meirihlutann af fénu til heimalandsins en lagt var hald á um 80 þúsund dollara á reikningi hans í Bandaríkjunum.

Réttarhöld yfir Elmezayen hefjast 3. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert