„Evrópusinnað“ bréf Johnson birt

Boris Johnson sækist eftir formennsku í breska íhaldsflokknum og jafnframt …
Boris Johnson sækist eftir formennsku í breska íhaldsflokknum og jafnframt stól forsætisráðherra. AFP

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, viðraði stuðning sinn við sameiginlegan markað Evrópusambandsins í bréfi til ekkju flokksbróður síns ári áður en hann ákvað að gerast Evrópusambandsandstæðingur og hefja baráttuna fyrir útgöngu úr sambandinu.

Þetta sýnir bréf sem breska blaðið Guardian hefur undir höndum og Johnson ritaði í janúar árið 2015 til að votta ekkju íhaldsmannsins Sir Leon Brittan samúð sína.

Peter Guilford, fyrrum talsmaður Brittan og náinn samverkamaður þeirra beggja, segir anda bréfsins vera „evrópusinnaðan“ (e. pro-European). Leon Brittan heitinn hafði einmitt verið ötull talsmaður Evrópusamstarfsins og innri markaðar þess, sem Bretar hafa nú í hyggju að yfirgefa.

Boris Johnson hefur á síðustu misserum skipað sér í fremstu röð talsmanna útgöngu ESB, og kann að virðast sem svo hafi lengi verið. Því fer hins vegar fjarri. Eftir að David Cameron, þáverandi forsætisráðherra, kynnti það samkomulag sem hann hafði náð um breytingar á samningi Breta við ESB og boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina, var þess beðið í ofvæni hvort Boris tæki afstöðu með eða á móti aðild.

Trúði á vel heppnað samkomulag

Það var ekki fyrr en í febrúar 2016, fjórum mánuðum fyrir atkvæðagreiðsluna, sem Boris lýsti því yfir að hann styddi útgöngusinna og gekk til liðs við hreyfinguna Vote Leave sem er mörgum eftirminnileg fyrir auglýsingastrætisvagna sem vöktu mikla athygli og þóttu vel heppnaðir. Þóttu fullyrðingarnar, sem þar var að finna, um að 350 milljónir punda myndu sparast breska ríkinu á viku við útgönguna og að þær mætti nýta í heilbrigðiskerfið þó einkar vafasamar. Ekkert bólar enda á loforðinu lengur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skoðanir Johnson á Brexit eru dregnar í efa. Johnson hafði áður lýst því yfir þegar viðræður um endurskoðaðan aðildarsamning stóðu yfir árið 2015, að hann hefði fulla trú á að David Cameron tækist að landa góðum samningi og að breska þjóðin myndi styðja áframhaldandi aðild.

Þá birti Sunday Times í október 2016 grein sem blaðið hafði grafið upp eftir Boris þar sem hann lýsir yfir stuðningi við aðild. „Þetta er markaður við fætur okkar, tilbúinn til frekari hagnýtingar fyrir bresk fyrirtæki,“ ritaði Johnson, og hélt áfram „Aðildargjaldið virðist frekar smátt fyrir þennan aðgang. Af hverju erum við svona áfjáð í að snúa bakinu í þetta?“

Gagnrýnendur Johnson halda því fram að fyrri stuðningur sýni að hann fylgi hentistefnu og hafi skipt um hest í miðri á því útgöngustefnan væri vænlegri til að koma honum í forsætisráðuneytið, eins og flest virðist stefna í nú.

Aðrir segja að Boris hafi velt fyrir sér öllum sjónarmiðum, eins og rétt sé að gera, skoðað kosti og ókosti aðildar og síðan tekið upplýsta ákvörðun út frá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert