Fannst á lífi eftir sólarhring í rústum

Björgunarmenn flytja hér konu úr rústum hússins í gær.
Björgunarmenn flytja hér konu úr rústum hússins í gær. AFP

Björgunarmenn náðu í dag ungri konu úr rústum byggingar í borginni Mumbai á Indlandi, degi eftir að byggingin hrundi. Tvö ung börn hennar eru á meðal þeirra þrettán sem látið hafa lífið í þessum hörmungum, sem talið er að hafi orsakast vegna mikilla monsúnrigninga.

„Hún er með nokkur meiðsli og fær aðhlynningu en börnin hennar lifðu ekki af. Við erum vongóð um að enn finnist fólk á lífi í rústunum,“ sagði Sachidanand Gawde, talsmaður þjóðarbjörgunarsveitar Indverja, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Björgunaraðgerðir í rústum hússins eru á lokastigi, en það stendur í afar þéttri og gamalli byggð í suðurhluta borgarinnar, sem hefur gert aðkomu björgunarfólks og sjálfboðaliða erfiða. Húsið sem um ræðir var fjögurra hæða hátt og hátt í 100 ára gamalt.

Algengt er að ótraust hús og önnur mannvirki gefi sig undan ágangi linnulausrar rigningar þegar monsúntímabilið stendur yfir í Mumbai. Fyrr í mánuðinum létust 30 manns þegar veggur hrundi í borginni og einnig létust 15 manns í borginni Pune í sambærilegu atviki.

Að minnsta kosti 200 manns eru sögð hafa lát­ist vegna flóða, aur­skriða og hruns bygg­inga í suður­hluta Asíu und­an­farn­ar vik­ur.

Húsið var yfir 100 ára gamalt, en algengt er að …
Húsið var yfir 100 ára gamalt, en algengt er að hús og önnur mannvirki í Mumbai gefi sig undan monsúnsregninu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert