Lögreglumaður braut gegn 15 ára þolanda

Stúlkan sakar hann um nauðgun, en lögreglumaðurinn hefur játað á …
Stúlkan sakar hann um nauðgun, en lögreglumaðurinn hefur játað á sig vægara brot og verður dæmdur fyrir það síðar í sumar. AFP

Rannsóknarlögreglumaður í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur játað að hafa brotið gegn 15 ára gamalli stúlku, sem hann komst í kynni við eftir að hann tók að sér að rannsaka mál sem hún tilkynnti til kynferðisbrotadeildar.

Stúlkan sakar hann um nauðgun, en lögreglumaðurinn hefur játað á sig vægara brot, ólögmæt kynferðismök og lostafullt athæfi með barni.

Neil David Kimball braut gegn stúlkunni eftir að honum hafði …
Neil David Kimball braut gegn stúlkunni eftir að honum hafði verið falið að rannsaka kynferðisbrot gegn henni.

New York Times fjallar um þetta mál og í umfjöllun miðilsins segir að búist sé við að lögreglumaðurinn, Neil David Kimball, fái þriggja ára fangelsisdóm. Hann hafði tvívegis áður verið sakaður um brot í starfi, en í hvorugt skiptið voru mál hans kærð.

Kimball komst í kynni við stúlkuna árið 2017, er hann tók mál hennar til rannsóknar eftir að hún tilkynnti að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Samkvæmt yfirlýsingu hennar urðu þau vinir í kjölfarið og síðan braut hann gegn henni kynferðislega.

Kimball var kærður fyrir að hafa bundið stúlkuna niður og nauðgað henni í hjólhýsi sínu á meðan hann hafði mál hennar til rannsóknar, en saksóknarar í málinu segja að þeir hafi síðar komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að sanna að lögreglumaðurinn hefði beitt valdi gegn stúlkunni.

Stúlkan tilkynnti brotið ekki sjálf, heldur sagði faðir hennar öðrum rannsóknarlögreglumanni frá því um það bil ári eftir að það átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert