Óska ferðaleyfis fyrir uighur-mæðgin

Sadam Abudusalamu, uighur-múslimi af áströlskum uppruna, fékk nýlega samþykktan ástalskan …
Sadam Abudusalamu, uighur-múslimi af áströlskum uppruna, fékk nýlega samþykktan ástalskan ríkisborgararétt fyrir son þeirra hjóna, hinn tveggja ára gamla Lufty, en móðir drengsins, Nadila Wumaie, er fædd og uppalin í Kína. AFP

Áströlsk yfirvöld hafa farið þess á leit við ráðamenn í Kína að móður úr hópi uighur-múslima og barnungum syni hennar verði leyft að ferðast úr landi.

Það var faðir barnsins, sem búsettur er í Ástralíu, sem leitaði á náðir yfirvalda í tilraun til þess að komast í samband við eiginkonu sína og barn þeirra, sem hann hefur aldrei hitt.

Yfirvöld í Xinjiang-héraði í Kína eru talin ofsækja uighur-múslima, aðskilja börn frá fjölskyldum sínum, trúarhefðum og tungumáli, og halda fullorðnum meðlimum minnihlutahópsins í kyrrsetningarbúðum (e. detention camps).

Sadam Abudusalamu, uighur-múslimi af áströlskum uppruna, fékk nýlega samþykktan ástalskan ríkisborgararétt fyrir son þeirra hjóna, hinn tveggja ára gamla Lufty, en móðir drengsins, Nadila Wumaie, er fædd og uppalin í Kína. Abudusalamu óttast að Lufty verði tekinn af móður sinni og settur í umsjá annarrar fjölskyldu komist hann ekki í burtu frá Kína.

Að sögn Abudusalamu var eiginkonu hans til skamms tíma í haldi lögreglu í Xinjiang eftir að í ljós kom að eiginmaður hennar hafði óskað eftir ferðaleyfi fyrir hana, en samkvæmt mannréttindahópum virðast yfirvöld í Xinjiang reyna að koma í veg fyrir að uighur-múslimar haldi sambandi við ættingja sína erlendis.

Kínversk yfirvöld hafa ekki orðið við beiðni þeirra áströlsku, en Ástralía var ein 22 þjóða sem skrifuðu undir yfirlýsingu hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna vegna meðferðar á uighur-þjóðinni í Kína.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert