Sögðu skatta stríða „gegn vilja Guðs“

„Við skuldum ekki neitt, þar sem við erum hans [Guðs],“ …
„Við skuldum ekki neitt, þar sem við erum hans [Guðs],“ sagði Fanny Alida Beerepot við réttinn í Tasmaníu. AFP

Systkini í Tasmaníu hafa verið dæmd til þess að greiða áströlskum skattayfirvöldum yfir tvær milljónir ástralskra dala, en fjölskyldan hafði sleppt því að borga tekjuskatt og önnur gjöld árum saman vegna þeirrar trúarlegu sannfæringar sinnar að greiðsla skatta væri andstæð vilja Guðs almáttugs.

Þau Fanny Alida Beerepot og bróðir hennar Rembertus Cornelis Beerepot komu fyrir Hæstarétt Tasmaníu í dag þar sem þetta varð niðurstaðan. Þau eru kristnir trúboðar og höfðu hvort um sig átt að borga 930.000 dali í skatta á árinu 2017, en slepptu því sökum trúarsannfæringar sinnar.

Þau vörðu sig sjálf fyrir rétti, samkvæmt frétt ástralska miðilsins ABC um málið, og færðu rök fyrir því að skattlagning yfirvalda skaðaði samband fólks við Guð og að það hefði þegar fært bölvun yfir Ástralíu í formi þurrka og ófrjósemi.

„Við skuldum ekki neitt, þar sem við erum hans [Guðs],“ sagði konan við réttinn, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau systkinin lenda í vanda sökum sannfæringar sinnar.

Árið 2017 var landareign þeirra í Tasmaníu tekin af þeim og seld á uppboði vegna vangreiddra fasteignaskatta, sem þau höfðu neitað að borga af sömu ástæðu.

„Þú skalt ekki borga skatta“ ekki í Biblíunni

Stephen Holt, dómari í málinu, sagði í niðurstöðu sinni að það væri ekkert í Biblíunni sem segði til um að það væri andstætt kristinni trú að borga skatta.

„Ef þú getur ekki fundið kafla í helgiriti eða guðspjalli þar sem segir „þú skalt ekki borga skatta“ þá hljótið þið að sjá að ég eigi í erfiðleikum með að byrja að taka beiðnina til greina,“ sagði dómarinn við Beerepot-systkinin.

Dómarinn sagðist trúa því að þetta væru sannarlega trúarskoðanir fólksins, en ekki bara tilraun til þess að sleppa við skattgreiðslur, en þó væri það svo, samkvæmt Biblíunni, að lögmál Guðs og ríkisins verkuðu á tveimur ólíkum sviðum.

Samtals voru systkinin dæmd til þess að greiða 2,3 milljónir ástralskra dala, andvirði rúmlega 200 milljóna íslenskra króna, vegna skattaskuldar sinnar, með vöxtum og öðrum kostnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert