Blýmengun veldur áhyggjum í skólum

Loftmynd tekin af Notre-Dame dómkirkjunni í gær.
Loftmynd tekin af Notre-Dame dómkirkjunni í gær. AFP

Yfirvöld í París hafa fyrirskipað að skólar í nágrenni Notre-Dame kirkjunnar verði rýmdir og „djúphreinsaðir“. Var hreinsunin fyrirskipuð til að tryggja að íbúum stafi ekki ógn af blýmengun í andrúmsloftinu. 

Í kjölfar eldsvoðans í Notre-Dame í apríl var varað við því að um 300 tonn af blýi á kirkjuþakinu og í kirkjuturninum bráðnaði í eldsvoðanum og dreifðist út í andrúmsloftið.

Í nýrri skýrslu sem birt var í dag kemur fram að blýmagn í andrúmslofti í skólum og barnaheimilum í nágrenni kirkjunnar, væri næstum því 10 sinnum hærra en öryggisviðmið gera ráð fyrir.

Í skýrslunni kemur einnig fram að yfirvöld hafi beðið fram í maí með það að rannsaka blýmagn í 10 skólum og barnaheimilum á Ile se la Cite-eyjunni í miðri París. Niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var í Sainte-Catherine grunnskólanum, sýndu að blýmagn á fermeter í skólanum væru 698 míkrógrömm, en öryggisviðmið gera ráð fyrir að 70 míkrógrömm sé hættulegt magn. 

Í síðasta mánuði hvöttu heilbrigðisyfirvöld í París barnafjölskyldur og þungaðar konur, búsettar í nágrenni kirkjunnar, að láta mæla magn blýs í blóði sínu. 

Blýmengun getur valdið tauga- og taugakerfisröskunum í fólki, sérstaklega börnum, og nýrnavandamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert