Boeing greiðir flugfélögum háar bætur

Kyrrsettar MAX-vélar sjást hér standa á bílastæði starfsmanna Boeing-verksmiðjanna í …
Kyrrsettar MAX-vélar sjást hér standa á bílastæði starfsmanna Boeing-verksmiðjanna í Bandaríkjunum. Félagið tilkynnti um frekara tap vegna MAX-vandræðanna í dag. AFP

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti í dag um 6,6 milljarða dala kostnað sem fyrirtækið verður fyrir á öðrum ársfjórðungi vegna vandræðanna langdregnu með 737 MAX-þotur fyrirtækisins. 6,6 milljarðar dala eru um 830 milljarðar íslenskra króna.

„Við höldum áfram að einbeita okkur að því að koma 737 MAX aftur í þjónustu,“ sagði Dennis Muilenburg forstjóri fyrirtækisins í tilkynningu, en enn þá er ekkert vitað um það hvenær nákvæmlega MAX-vélar fá að fljúga aftur um loftin blá.

Allar slíkar vélar hafa verið kyrrsettar frá því í mars og Boeing segir að stefnt sé að því að vélarnar fljúgi á ný snemma á seinasta fjórðungi ársins. Það er þó ekki öruggt.

Bætur til flugfélaga og minni framleiðsla

Í tilkynningunni frá Boeing, sem barst eftir lokun markaða vestanhafs í dag, kom fram að hagnaður fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi myndi minnka um 4,9 milljarða dala vegna skaðabóta sem félagið þyrfti að greiða flugfélögum vegna truflana á starfsemi þeirra og sökum þess að Boeing hefur ekki getað skilað af sér pöntunum á MAX-þotum.

Til viðbótar við það segir fyrirtækið að tekjur þess muni dragast saman um 1,7 milljarða dala til viðbótar, vegna þess að hægt hefur verið á framleiðslu MAX-vélanna á meðan unnið er að endurbótum á þeim.

Óljóst hvenær MAX flýgur á ný

Í tilkynningu Boeing í dag sagði að fyrirtækið vonaðist til þess að fá samþykki eftirlitsaðila fyrir því að þoturnar færu aftur í loftið snemma á fjórða ársfjórðungi. Þessi von byggist þó einungis á eigin mati fyrirtækisins og tekið er fram í þessari tilkynningu til markaðsaðila að tímaramminn gæti reynst annar.

Fyrr í dag tilkynnti Southwest Airlines í Bandaríkjunum að flugfélagið myndi gera breytingar á flugáætlun sinni allt fram til 2. nóvember nk. og vísaði félagið til þess að tímaramminn væri „enn óljós“. Flugfélagið fellir því niður fjölmörg flug í nóvembermánuði, sem áður hafði verið gert ráð fyrir að MAX-þotur myndu sinna.

Áður hafði félagið gert breytingar á flugáætlun sinni fram í byrjun október.

Icelandair heldur sig við október að svo stöddu

Icelandair hefur sömuleiðis neyðst til þess að gera breytingar á flugáætlun sinni út októbermánuð til þess að bregðast við MAX-vandræðum Boeing. Fjallað var um það fyrr í þessari viku í Wall Street Journal og fleiri miðlum að mögulega, jafnvel líklega, yrðu vélarnar kyrrsettar fram á næsta ár.

Blaðamaður spurðist fyrir um það í kjölfarið hvort Icelandair væri með það til skoðunar að framlengja breytingar á flugáætlun sinni, en fékk þau svör frá Ásdísi Ýr Pétursdóttur upplýsingafulltrúa að félagið myndi að svo stöddu halda sig við útgefna áætlun um að gera breytingar á flugáætlun út október.

Þota Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX-8.
Þota Icelandair af gerðinni Boeing 737 MAX-8. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is