Dreifa límmiðum sem banna samkynhneigð

Límmiðarnir eru með svörtum krossi yfir regnbogafánann, baráttufána alls hinsegin ...
Límmiðarnir eru með svörtum krossi yfir regnbogafánann, baráttufána alls hinsegin fólks. AFP

Pólska vikublaðið Gazeta Polska hyggst dreifa límmiðum sem gefa til kynna að samkynhneigt fólk sé ekki leyfilegt á tilteknu svæði. Límmiðarnir eru með svörtum krossi yfir regnbogafánann, baráttufána alls hinsegin fólks. Límmiðunum verður dreift með næsta blaði. BBC greinir frá

Blaðið, sem er með um 110.000 áskrifendur, styður opinberlega stjórn­ar­flokkinn Lög og rétt (PiS). Í Póllandi er hjónaband samkynhneigðra bannað, samkvæmt gildandi lögum. 

Límmiðarnir hafa verið harðlega gagnrýndir. Sendiherra Bandaríkjanna í Póllandi, Georgette Mosbacher, gagnrýnir uppátækið harðlega í Twitter-færslu. „Ég er vonsvikin og uggandi yfir því að hópur fólks taki sig saman og hvetji til haturs og skort á umburðarlyndi. Við berum virðingu fyrir tjáningarfrelsinu en við verðum að standa saman um gildi eins og fjölbreytileika og umburðarlyndi.“  

Ritstjóri blaðsins, Tomasz Sakiewicz, svaraði færslu sendiherrans og benti honum á að Pólverjar kynnu vel að meta frelsi og umburðarlyndi. Slíkt hefðu þeir gert um aldir. Það væri meðal annars ástæðan fyrir því að þeir styddu uppgang Bandaríkjanna. Hann benti sendiherranum jafnframt á að bera ætti virðingu fyrir skoðunum þeirra beggja. 

Pawel Rabiej, borgarstjóri Varsjár, tekur í sama streng og sendiherrann. Hann segir að formleg kvörtun vegna límmiðanna verði send til ríkissaksóknara. Auk þess bendir hann á að „þýskir fasistar hafi búið til „gyðingafrí svæði“.   

 

mbl.is