FBI með öldrunarfilterinn til rannsóknar

Tónlistarmennirnir Jonas-bræður eru meðal þeirra sem hafa birt mynd af …
Tónlistarmennirnir Jonas-bræður eru meðal þeirra sem hafa birt mynd af sér með öldrunarfilternum.

Öldrunarfilter sem notið hefur mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum er nú til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI. Segir danska ríkisútvarpið DR lögreglu óttast að filterinn, sem er rússneskt app, feli í sér gagnamisnotkun.

Fjöldi íslenskra, sem erlendra, samfélagsmiðlanotenda hefur undanfarið birt af sér myndir í gegnum Faceapp sem sýna þá hafa elst um nokkra áratugi.  

AP-fréttaveitan segir FBI hafa ákveðið að rannsaka rússneska fyrirtækið sem bjó til appið eftir að hafa fengið bréf frá Chuck Schumer, leiðtoga minni­hlut­ans í öld­unga­deild­ Bandaríkjaþings.

Lýsti Schumer þar yfir áhyggjum af þeim upplýsingum sem rússneska fyrirtækið safnaði að sér frá þeim milljónum Bandaríkjamanna sem hafa notað filterinn.

„Faceapp getur orðið að þjóðaröryggisógn og ógn við einkalíf milljóna Bandaríkjamanna,“ segir í bréfinu. Sagði Schumer það „verulegt áhyggjuefni séu persónuupplýsingar afhentar óvinveittu erlendu ríki sem eigi í netstríði við Bandaríkin“.

Faceapp er búið til af Wireless Lab-fyrirtækinu í Rússlandi og er aðgengilegt í bæði App Store hjá Apple og hjá Google Play, en appið trónir í efsta sæti á báðum stöðum yfir vinsælustu öppin.

DR segir áhyggjur nú hafa vaknað af því hvað Faceapp geri með þann mikla fjölda mynda sem það fær sendar.

Bandaríski tæknimiðillinn TechChrunch hefur hins vegar eftir Jaroslav Goncharov, stjórnanda appsins, að engar notendaupplýsingar séu sendar til Rússlands. Myndunum sé þess í stað hlaðið upp í ský hjá Google Clouds og Amazon Web Services og í flestum tilfellum sé þeim eytt innan 48 tíma. Þá selji Faceapp hvorki né deili með öðrum upplýsingum um notendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert