Lagfæra kistu egypska drengfaraósins

Höggmynd af andliti Tútankamons.
Höggmynd af andliti Tútankamons. AFP

Nú er unnið að því að lagfæra kistu egypska faraósins Tútankamons sem réði ríkjum í Egyptalandi til forna sem „drengfaraóinn“.

Gyllt kista drengfaraósins hefur verið fjarlægð úr graf­hýsi hans í Kon­unga­daln­um í Lúxor og færð á egypskt safn (e. Grand Egyptian Museum), samkvæmt ráðuneyti fornleifamála í Egyptalandi. 

Kista Tútankamon hefur ekki verið lagfærð síðan grafhýsi hans var uppgötvað árið 1922. Talið er að Tútankamon hafi látist fyrir um 3.000 árum síðan og var hann líklega á táningsaldri þegar hann andaðist.

Faðir hans, Akhenaten, olli miklum usla í Egyptalandi vegna trúarskoðana sinna og féll valdatíð Tútankamons í skugga hins alræmda Akhenaten. Drengfaraóinn þótti því ekki vera á meðal fræknustu faraóa Egyptalands hins forna, en þegar breski fornleifafræðingurinn Howard Carter uppgötvaði grafhýsi hans á fyrri hluta síðustu aldar vöktu þær gersemar sem þar fundust gríðarlega mikla athygli um heim allan.

Tútankamon er því í dag á meðal best þekktu egypsku faraóanna.

Kista Tútankamons er til þess gerð að varðveita múmíu drengfaraósins gegn hita og raka, en vegna fjölda ferðamanna sem heimsækja gröf hans hefur kistan orðið fyrir skaða og múmían er berskjaldaðri en áður. 

Lagfæring kistunnar mun taka í kringum átta mánuði og verður blaðamönnum boðið að skoða kistuna á safninu eftir tvær vikur samkvæmt CNN. Þá hefur grafhýsið sjálft einnig verið lagfært nýlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert