Miðaldafley í miðri borg

Glaðbeittir fornleifafræðingar, Lars Bigum Kvernberg og Marja-Liisa P. Grue, sýna …
Glaðbeittir fornleifafræðingar, Lars Bigum Kvernberg og Marja-Liisa P. Grue, sýna hér keramik-brot úr fornum potti, auk sjö skipa frá miðöldum hefur fjöldi gripa fundist sem gerir fornleifafræðingum Norska siglingasafnsins kleift að skapa myndbrot af lífinu við höfnina fyrir bæjarbrunann 1624. Ljósmynd/Elling Utvik Wammer/Norska siglingasafnið

Sjö skip og sín ögnin af hverju hétu ferðaminningar Sigurðar Haralz þegar þær komu út á bók árið 1958 og óneitanlega leitar titillinn upp í hugann þegar farið er ofan í saumana á einum merkasta fundi norskra fornleifafræðinga síðustu ár, sjö skipum frá miðöldum í Bjørvika, bókstaflega í miðri Ósló og svo að segja í bakgarði nýja Edvard Munch-safnsins.

„Þar til í gær [fyrradag] hafði Norska siglingasafnið [Norsk maritimt museum] uppgötvað sex skipsflök á lóðinni sem kallast B8a í Bjørvika. Þá eru fulltrúar Rannsóknarstofnunar um menningarminjar [Norsk institutt for kulturminneforskning (NIKU)] einnig við rannsóknir á svæðinu og þeir fundu reyndar eitt skipsflak til í gær [fyrradag] svo nú höfum við fundið allt í allt sjö skip á lóðinni.“

Þetta segir Elling Utvik Wammer, verkefnisstjóri hjá siglingasafninu í samtali við mbl.is í gær og á erfitt með að leyna þeim áhrifum sem slíkur hvalreki fyrir samfélag norskra fornleifa- og sagnfræðinga hefur á geð hans.

Hér var öll Ósló á miðöldum

„Aldursgreiningar hafa leitt í ljós að flökin eru frá 16. öld og fram á þá 18. Við fyrri rannsóknir, einkum síðasta áratuginn, höfum við fundið alls tuttugu flök í innri hluta Bjørvika, þar sem kallast Bispevika. Á þessu svæði var öll Ósló á miðöldum og þar með höfnin, biskupinn sat í Bispevika sem dregur nafn sitt af honum,“ útskýrir Wammer.

Með nýja Edvard Munch-safnið sem baksvið vinna fornleifafræðingar að stórum …
Með nýja Edvard Munch-safnið sem baksvið vinna fornleifafræðingar að stórum uppgreftri í Bjørvika. Þetta skip, eitt sjö nýfundinna, ber vinnuheitið Bispevika 19. Ljósmynd/Elling Utvik Wammer/Norska siglingasafnið

Hann segir siglingasafnið hafa tekið til við nýjan gröft á svæðinu í apríl, í tengslum við miklar nýbyggingarframkvæmdir sem nú standa yfir. Fornleifafræðingar hafi því grafið í þrjá mánuði nú og afraksturinn sé framar björtustu vonum.

„Svæðið sem við höfum einbeitt okkur að er um það bil 120 sinnum 60 metrar að flatarmáli og við gröfum niður á þriggja metra dýpi undir sjávarmál nútímans,“ segir Wammer. Hann segir verkefninu upprunalega hafa átt að ljúka í september, en ljóst sé nú, eftir skipsfundina, að verkefnið lengist í annan endann.

Hvernig fer vinna fornleifafræðinga á vettvangi fram?

„Við byrjuðum 10, en núna eru tólf, þrettán fornleifafræðingar að grafa á rannsóknarsvæðinu. Jörð hefur enn ekki verið rofin á stórum hlutum svæðisins svo við búum okkur undir að finna fleiri flök í sumar og haust,“ segir Wammer spenntur.

Byrja að sýna skipin sem fyrst

Vinnan á vettvangi er þó aðeins byrjunarreiturinn og þrettánmenningarnir þar aðeins hluti af langri keðju verkefna. „Á sjálfu safninu vinnur svo fjöldi fornleifafræðinga sem taka við skipum og gripum héðan, forverja munina og rannsaka þá,“ segir hann og bætir því við að um minna muni en þá viðbót sem safnkosturinn fær við þetta, en stefnt verður að því að byrja að sýna „nýju“ skipin svo fljótt sem verða má.

Fley­in eru mis­mun­andi að stærð. Hér er það minnsta, í …
Fley­in eru mis­mun­andi að stærð. Hér er það minnsta, í raun bara bát­ur, en greini­lega fiski­bát­ur, um það vitn­ar fiski­teinn­inn sem lá í botni hans. Ljós­mynd/​Ell­ing Ut­vik Wammer/​Norska sigl­inga­safnið

„Þegar vinnunni lýkur hérna tekur svo eftirvinnan við, það eru greiningar og skýrslugerð um alla rannsóknina, þetta verður allur veturinn,“ segir Wammer og auðheyrt að það er ekki kvíðanum fyrir að fara í hans huga þegar hann lítur til vetrarins, en Wammer er sjálfur fornleifafræðingur.

Skyldu fundir á borð við Bjørvika-skipin kollvarpa einhverjum eldri kenningum eða hvaða lærdómur verður nú dreginn fram úr myrkri miðaldanna?

„Skip, bryggjur og fornir munir koma oft í ljós þegar farið er í stórar byggingarframkvæmdir og þess vegna fylgjum við þessum framkvæmdum alveg eftir,“ segir Wammer. „Þessir fundir gefa okkur sýn á hvernig Ósló leit út á miðöldum og fram til bæjarbrunans 1624 [stórbruna sem kom upp 17. ágúst það ár og eyddi nánast öllum bænum, svæði þar sem nú er um það bil Gamlebyen í miðborginni]. 

Engir uppdrættir, nothæfar teikningar eða kort eru til sem sýna hvernig höfnin í Ósló leit út fyrir brunann svo með þessu verður til algjörlega ný þekking,“ segir Wammer og eldur fræðanna brennur í orðunum. Hann bætir því við að auk þess að geta nú kortlagt ólík byggingarstig hafnarinnar muni gripir á borð við keramik-brot, búnað úr bátum og skipum, bein húsdýra og þar fram eftir götunum gera fræðingum siglingasafnsins kleift að skapa myndbrot af lífinu við höfnina, glugga að löngu horfinni fortíð höfuðborgarinnar.

„Við finnum ummerki um verslun, fiskveiðar, mataræði, alþjóðleg tengsl og ótalmargt fleira. Verðmætið fyrir rannsóknir og þekkingarmiðlun er ómetanlegt,“ segir Elling Utvik Wammer að lokum, norskur fornleifafræðingur sem bókstaflega er með annan fótinn á 16. öld.

Skipið „Bispevika 19“ hefur varðveist ótrúlega vel, að sögn Wammer, …
Skipið „Bispevika 19“ hefur varðveist ótrúlega vel, að sögn Wammer, og er að líkindum frá ofanverðri 16. öld. Ljósmynd/Elling Utvik Wammer/Norska siglingasafnið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert