„Ótrúlega sjaldgæfur regnbogi“

Regnboginn sem festur var á filmu í Skotlandi í dag …
Regnboginn sem festur var á filmu í Skotlandi í dag var þrefaldur á við þann á þessari mynd. mbl.is/RAX

Sérstaklega sjaldgæft veðurfyrirbrigði var fest á filmu í dag við vatnið Loch Lochy í skosku hálöndunum. Tvöfaldur regnbogi, með þriðja regnboganum á milli, sást sveima yfir vatninu og var umræddur þriðji regnbogi með sömu litasamsetningu og sá sem hann var tengdur við. Þykir veðurfróðum mönnum þetta óvenjulegt, að því er greint er frá á vef BBC

Sagði Simon King veðurfræðingur: „Nokkrir hafa klórað sér í hausnum yfir þessu, þar sem þetta er eitthvað ótrúlega sjaldséð.“

Þá bætti hann við: „Stundum gætirðu orðið nógu heppinn til að sjá „tvöfaldan regnboga“, þar sem þú sérð daufari regnboga, með litina raðaða í öfugri röð, utan við aðalregnbogann. Undir sjaldgæfum kringumstæðum gætirðu einnig orðið svo heppinn að þú sérð „speglaðan regnboga“, þar sem vatnsyfirborð gefur þér annan regnboga. Aftur á móti sendi einn af veðurathugunarmönnum okkar hjá BBC mynd þar sem allir þessir hlutir sáust, en við nánari athugun sáum við að innan við aðalregnbogann var annar regnbogi nánast fastur við hann með litunum í sömu röð og aðalregnboginn.“ 

mbl.is