Rekinn fyrir fjöldapóst um Tupac

Jerry Foxhoven, 66 ára, er virkilega ákafur Tupac-aðdáandi, svo mikill …
Jerry Foxhoven, 66 ára, er virkilega ákafur Tupac-aðdáandi, svo mikill raunar, að hann missti vinnuna út af því. Ljósmynd/Iowa-ríki

Jerry Foxhoven var 66 ára gamall forstöðumaður á velferðarsviði Iowa-ríkis í Bandaríkjunum þar til hann var rekinn í síðasta mánuði. Ástæðan fyrir brottrekstri hans voru tölvupóstar sem hann sendi til allra 4.300 starfsmanna stofnunarinnar, þar sem hann dásamaði rapparann Tupac Shakur og hvatti þá til þess að hlusta á lögin hans yfir afmælishelgina hans 16. júní.

Vikulega hélt Foxhoven Tupac-föstudaga, þar sem skrúfað var upp í græjunum á skrifstofunni og Tupac spilaður. Það voru svo línur úr lögum Tupacs sem hann sendi í pósti til allra starfsmanna sem fylltu mælinn. 

Tupac Shakur var skotinn til bana 1996. Tónlist hans er …
Tupac Shakur var skotinn til bana 1996. Tónlist hans er enn spiluð daglega um allan heim. Ljósmynd/Wikipedia.org

Í frétt AP er sagt frá því að í fyrra, þegar Foxhoven hélt upp á 65 ára afmælið sitt, hafi hann í tilefni þess dreift kökusneiðum til starfsmanna á skrifstofunni sem voru merktar „thug life“ sem voru kjörorð Tupacs á tíma.

AP hefur undir höndum 350 blaðsíður af tölvupóstum frá Foxhoven sem innihalda orðið Tupac eða 2Pac eins og það er stundum skrifað. Póstarnir sýna glöggt hálfgerða áráttu Foxhoven fyrir rapparanum, sem hann vísaði til í hvívetna, á Valentínusardaginn, á dánarafmæli rapparans og í ímyndarherferðum Iowa-ríkis. Þess er að geta að Tupac hafði ekki svo vitað sé sérstök tengsl við Iowa, sem er í miðaustanverðum Bandaríkjunum. Tupac var vesturstrandarmaður hins vegar og stoltur fulltrúi þess svæðis, þó að upprunalega hafi hann verið fæddur í New York.

Ekki hefur fengist staðfest frá yfirvöldum að Tupac-ástríða Foxhoven sé orsök uppsagnar hans en AP segir orsakasamhengið liggja fyrir. Yfirboðurum Foxhoven höfðu borist kvartanir undan Tupac-póstunum, en ekki margar.

Guardian tekur hér saman 10 Tupac-línur sem Foxhoven kynni og mætti hafa notast við til að hvetja samstarfsmenn sína til dáða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert