Trump leggur línur fyrir kosningabaráttuna

Donald Trump á fundinum í gær.
Donald Trump á fundinum í gær. AFP

„Sendið hana til baka! Sendið hana til baka“ kölluðu stuðningsmenn Donald Trump Bandaríkjaforseta í Norður-Karólínu í gærkvöldi. Vísuðu þeir þar til Ilhan Omar, múslimskrar þingkonu Minnesotaríkis sem fæddist í Sómalíu og sem forsetinn hefur beint hatursorðræðu sinni gegn.

CNN segir fundinn í gær vera forleik að kosningabaráttu sem þegar sé lituð hatri og gefi vísbendingar um hvaða aðferðum Trump ætli sér að beita til að ná endurkjöri í forsetakosningunum 2020.

Hróp stuðningsmanna forsetans minntu nefnilega all verulega á kröfu þeirra fyrir forsetakosningarnar 2016 er þeir hrópuðu „Í fangelsi með hana“  um Hillary Clinton mótframbjóðenda Trumps og „Byggjum múrinn“ með vísun í landamæramúrinn sem Trump hefur heitið því að reisa á landamærum Bandaríkjanna og  Mexíkó.

Ilhan Omar er lengst til vinstri á myndinni ásamt demókrataþingkonunum …
Ilhan Omar er lengst til vinstri á myndinni ásamt demókrataþingkonunum sem Trump sagði að fara aftur til síns heima, líkuðu þeim ekki Bandaríkin. AFP

„Geta bara farið“

Líkt og þá gerði forsetinn enga tilraun til að þagga niður í kröfum stuðningsmanna sinna. Undanfarna daga hefur hann heldur gefið í varðandi árásir á fjórar framsæknar þingkonur Demókrataflokksins sem gjarnan eru kallaðar „flokkurinn“. Hefur Trump dregið þjóðerniskennd þeirra í efa og beint athyglinni að umdeildari ummæli þeirra um Ísrael, bandarískar löggæslustofnanir og árásirnar á tvíburaturnana. Í sumum tilfellum hefur forsetinn raunar afbakað ummæli þeirra.

„Þær unna ekki landi okkar. Þær eru svo reiðar,“ sagði Trump, fordæmdi þingkonurnar og sagði þær „hatursfulla öfgamenn“. „Ef þeim líkar þetta ekki geta þær bara farið,“ bætti hann við.

CNN segir kynþáttahatur vissulega hafa komið fyrir í kosningabaráttu fyrri forseta, en aldrei með jafn opinskáum hætti og nú. Bandaríkjaforseti hafi heldur aldrei tjáð sig um kynþáttafordóma sína eftir að hafa náð kjöri, líkt og Trump hefur gert.   

Þeir demókratar sem hafa gefið kost á sér í forsetaslaginn segja þetta sýna hvers vegna það þurfi að hrekja Trump úr embætti.

„Þetta er viðbjóðslegt. Þetta er heigulsháttur. Þetta eru kynþáttafordómar og útlendingahatur. Þetta er smánarblettur á forsetaembættinu,“ skrifaði öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris á Twitter um árásir Trumps á þingkonurnar.

Nýtir Trump sér gremju í garð annarra kynþátta?

CNN segir uppgjörið nú vekja upp spurningar um komandi kosningabaráttu og það hvort að Trump muni nýta sér gremju í garð annarra kynþátta, harða innflytjendalöggjöf og gagnrýni á þá andstæðinga hans sem ekki eru hvítir til að tryggja sér stuðning verkamanna til að ná endurkjöri.

CNN segir úrslit þingkosninganna í fyrra benda til þess að orðræða forsetans gegn innflytjendum hafi virkað vel í þeim ríkjum þar sem repúblikanar hafa haft mikinn meirihluta. Í öðrum ríkjum hafði hún þveröfug áhrif og missti Repúblikanaflokkurinn meirihluta sinn í fulltrúadeild þingsins.

Það kann þó líka að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2020 að nafn Clinton, sem var umdeild meðal stuðningsmanna Demókrataflokksins, verður ekki á kjörseðlinum. Þetta, segir CNN, getur gert baráttuna um forsetaembættið enn torveldari, og fyrir vikið kann Trump að hafa enn meiri þörf fyrir mynda jafn mikla gjá milli framboðanna tveggja og kostur er.

Hillary Clinton var mótframbjóðandi Trumps í forsetakosningunum 2016. Hún er …
Hillary Clinton var mótframbjóðandi Trumps í forsetakosningunum 2016. Hún er einnig umdeild í eigin flokki. AFP

Kann að skara eld að eigin köku

Þó pólitískir upphafsleikir Trump virðist oft hvatvísislegir segir CNN reynslu undanfarinna ára engu að síður sýna að forsetinn kann vel að skara eld að eigin köku á þann hátt sem henti.

Vísbendingar um kynþáttafordóma myndu þannig vekja spurningar um hæfi hvaða annars forseta sem væri. Trump sé hins vegar ánægður með áhrifin og líti svo á að deila sín við þingkonurnar gagnist í kosningabaráttunni.

„Ég held að ég sé að vinna þennan pólitíska slag,“ sagði Trump við fréttamenn í gær. „Ég held að þingkonurnar aðhyllist ekki viðhorf okkar lands.“

Ætlar að gefa í varðandi öfgatóninn

CNN hefur eftir starfsmönnum forsetans að hann ætli enn að gefa í varðandi öfgatóninn næstu daga. Hann telji sig með því hafa dregið upp þá mynd að Demókrataflokkurinn í heild sé í greipum öfgahyggju. Þannig muni þeir kjósendur sem eru á miðjunni hrekjast frá málefnum sem Trump flokkar sem „sósíalísk“ — heilbrigðismál, loftslagsmál og skattar og um leið gleyma efasemdum sínum um Trump.

Ekki eru allir repúblikanar sáttir við árásir forsetans á þingkonurnar og telja hann vel geta náð markmiðum sínum án þeirra. „Mér fannst þetta neðan við virðingu embættisins,“ sagði Bob Vander Plaats leiðtogi Repúblikanaflokksins í Iowa.

CNN segir þá ákvörðun Trumps að réttlæta frekar en neita kynþáttafordómum hins vegar vera vísbendingu um ískyggilega áætlun.  Þingkonurnar fjórar, sem allar eru bandarískir ríkisborgarar, standa fyrir fjölmenningu sem Trump hefur dregið upp mynd af sem ógn við íhaldssama, hvíta Bandaríkjamenn en í þann flokk falla flestir stuðningsmenn forsetans.

Fullyrðingar Trumps um að umbótakröfur þingkvennanna séu „óþjóðernislegar“ og þær eigi bara að fara ef þeim líki ekki Bandaríkin eru mestu kynþáttafordómar sem nokkur forseti Bandaríkjanna hefur gerst sekur um í áratugi.

CNN segir að með því að draga þingkonurnar fram í sviðsljósið sé forsetinn að dusta rykið af slagorði síðustu kosningabaráttu sinnar „Make America Great Again“ og að sú áætlun hans sé tilkomin af nauðsyn. Eini möguleiki Trumps á að ná endurkjöri sé að leita á sömu mið og í síðustu kosningabaráttu. Vinsældir hans hafi aldrei náð 50% og sagnfræði sýni forseta yfirleitt fá slælegri kosningu í seinna skiptið. Þess vegna verði hann hann að draga upp neikvæða mynd af andstæðingi sínum og vonast með því til að ná að granda honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert