Ekkert samband hefur náðst við skipið

Stena Impero var tekið yfir af írönskum hermönnum í dag …
Stena Impero var tekið yfir af írönskum hermönnum í dag og er nú á leið til hafnar í Íran. Ljósmynd/Stena Bulk

Jeremy Hunt utanríkisráðherra Bretlands segir að það muni hafa „alvarlegar afleiðingar“ ef Íran sleppi ekki olíuflutningaskipinu Stena Impero, sem siglir undir breskum fána, úr haldi.

Skipið er í eigu sænska skipafélagsins Stena Bulk og hafa eigendur þess ekki náð neinu sambandi við það síðan síðdegis í dag. Það stefnir í átt að ströndum Írans.

„Við erum ekki að skoða hernaðaraðgerðir, við erum að skoða diplómatískar lausnir til þess að leysa úr stöðunni en það er alveg ljóst að hana verður að leysa,“ segir Hunt, sem hefur tekið þátt í tveimur fundum með Cobra-nefndinni, þjóðaröryggisráði Bretlands, í kvöld.

„Við munum svara á yfirvegaðan en kröftugan hátt,“ segir Hunt, sem hefur rætt málið við Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna og býst við því að ræða það fljótlega við utanríkisráðherra Írana, Mohammed Javad Zarif, samkvæmt frétt Reuters um málið.

Sjá má hvernig skipið breytti skyndilega um stefnu síðdegis í …
Sjá má hvernig skipið breytti skyndilega um stefnu síðdegis í dag, af alþjóðlegri siglingaleið um Hormuz-sund og í átt til Írans. Kort/Marine Traffic

Mesdar hleypt aftur af stað

Erik Hanell, forseti og framkvæmdastjóri Stena Bulk, segir að fyrirtækið sé í nánum samskiptum við bæði bresk og sænsk yfirvöld vegna stöðunnar, en 23 eru í áhöfn Stena Impero og eru skipverjarnir indverskir, rússneskir, lettneskir og filippseyskir. Engar fregnir hafa borist af líðan þeirra síðan að samband við skipið slitnaði er það var á Hormuz-sundi og tók skyndilega stefnu í norður í átt til Írans.

Öðru olíuflutningaskipi, Mesdar, hefur verið leyft að halda áfram för sinni, en vopnaðir hermenn írönsku byltingarvarðanna fóru um borð í skipið í kvöld eftir að hafa umkringt það á tíu bátum, samkvæmt frétt BBC um málið.

Allir skipverjarnir 25 eru heilir á húfi, samkvæmt skipafélaginu Norbulk Shipping, sem er með höfuðstöðvar sínar í Glasgow. Skipið siglir undir líberískum fána.

Reyndu við annað skip fyrir rúmri viku

Bresk stjórn­völd kyrr­settu ír­anskt ol­íu­skip við Gíbralt­ar 4. júlí og hafa Íran­ir í kjöl­farið reynt að svara í sömu mynt og kraf­ist þess að skipinu, Grace 1, verði leyft að halda þaðan.

Bret­ar hafa aukið viðbúnaðarstig sitt á sigl­inga­leiðinni um Óman­flóa upp í hæsta stig, en fyr­ir rúmri viku reyndu ír­ansk­ir strand­gæslu­bát­ar að taka yfir annað breskt skip, en hættu við eft­ir að bresk freigáta sem veitti ol­íu­skip­inu fylgd um fló­ann beindi að þeim byss­um sín­um.

Samkvæmt frétt Guardian sigla á bilinu 15-30 olíuflutningaskip um Hormuz-sund á degi hverjum.

Frétt Reuters

Frétt BBC

Frétt Guardian

mbl.is