Fékk lífstíðardóm fyrir morð á doktorsnema

Ronggao Zhang, faðir Yingying Zhang, yfirgefur dómshúsið í Illinois eftir …
Ronggao Zhang, faðir Yingying Zhang, yfirgefur dómshúsið í Illinois eftir að dómurinn féll í máli Christensen. AFP

Bandarískur maður, Brendt Christensen, fékk lífstíðardóm fyrir að ræna og myrða kínverskan námsmann. Guardian segir málið hafa vakið töluverða reiði hjá notendum kínverskra samfélagsmiðla, eftir að kviðdómur í Illinois gat ekki komið sér saman um dauðarefsingu sem saksóknari hafði farið fram á.

Zhang Yingying var í doktorsnámi í Bandaríkjunum þegar Christensen rændi henni þar sem hún beið eftir strætó á stoppistöð. Hann nauðgaði henni því næst, kyrkti hana og stakk með hnífi áður en hann barði hana til bana með kylfu. Christensen fjarlægði að lokum höfuðið af Zhang, en líkamsleifar hennar hafa aldrei fundist.

Saksóknari hafði krafist dauðarefsingar og naut við það stuðnings fjölskyldu Zhang, en kviðdómur gat ekki orðið einhuga um þá kröfu. Christensen fær þó sjálfkrafa lífstíðardóm án möguleika á náðun og sagði dómari gjörðir hans viðurstyggilegar.

Christensen tók ekki til máls við réttarhöldin, en faðir Zhang hefur sagt fjölskylduna ekki munu upplifa frið fyrr en líkamsleifar hennar finnast. „Ef þú átt einhverja mannúð eftir bintu þá enda á kvalir okkar,“ sagði í yfirlýsingu fjölskyldunnar til Christensen.

mbl.is