Forsætisráðherra grunaður um stríðsglæpi

Ramush Haradinaj sagði af sér í dag.
Ramush Haradinaj sagði af sér í dag. AFP

Ramush Haradinaj, forsætisráðherra Kósóvó hefur sagt af sér embætti eftir að hann var boðaður til skýrslutöku hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag þar sem hann hefur réttarstöðu sakbornings. Fékk hann að velja hvort hann kæmi til Haag sem almennur borgari eða forsætisráðherra, og valdi fyrri kostinn.

Haradinaj var áður yfirmaður í frelsisher Kósóvó, KLA. Hann var sýknaður af ákærum um stríðsglæpi, þar með talið glæpi gegn mannkyni, árið 2008 þar sem dómarar töldu saksóknara ekki hafa tekist að færa sönnur á að hann hefði stundað skipulegar ofsóknir gegn serbneskum íbúum Kósóvó í stríðinu 1998-1999.

Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn var settur á laggirnar 2002 og eiga flest ríki heims aðild að dómstólnum, en þó ekki Bandaríkin, sem hafa raunar leitt í lög að bandarísk stjórnvöld skuli „beita öllum mögulegum aðgerðum til að fá lausa Bandaríkjamenn eða bandamenn þeirra sem eru í haldi eða fangelsaðir vegna dóma Alþjóðastríðsglæpadómstólsins“. 

mbl.is