Lögðu hald á 5 Ferrari-bíla og 27 húseignir

Ferrari-bifreið. Meðal þeirra eigna sem lögregla lagði hald á voru ...
Ferrari-bifreið. Meðal þeirra eigna sem lögregla lagði hald á voru fimm Ferrari-bifreiðar. mbl.is/​Hari

Lögregluyfirvöld í Kanada og á Ítalíu handtóku 21 einstakling sem talinn er tilheyra ítölsku ’Ndrangheta-mafíunni í umfangsmiklum aðgerðum. Húsleit var gerð á 48 kaffihúsum, fyrirtækjum og íbúðarhúsum og hald lagt á eignir að andvirði 35 milljóna Kanadadollara, m.a. fimm Ferrari-bíla.

Guardian segir níu hafa verið handtekna í Kanada og eru þeir sakaðir um peningaþvætti og fyrir að halda úti ólöglegri veðmálastarfsemi á Toronto-svæðinu, auk þess að vera liðsmenn glæpasamtaka.

Kanadíska lögreglan leitar þó enn eins manns til viðbótar sem talinn er tengjast veðmálastarfseminni og fíkniefnasölu.

12 voru handteknir í aðgerðunum á Ítalíu og er tveggja til viðbótar enn leitað, m.a. vegna ólöglegrar vopnaeignar.

Eftirlýstur í áratug

„'Ndrangheta eru mjög hættuleg glæpasamtök,“ sagði ítalski rannsóknarlögreglumaðurinn Fausto Lamparelli, á fjölmiðlafundi með kanadísku lögreglunni. „Glæpasamtök virða engin landamæri.“

Meðal hinna handteknu var Angelo Figliomeni, en hann hefur verið eftirlýstur á Ítalíu í tæpan áratug og á hann 20 ára dóm yfir höfði sér. Þar sem hann er kanadískur ríkisborgari og tengsl við mafíuna flokkast ekki sem glæpur þar í landi höfðu ítölsk yfirvöld ekki geta fengið hann framseldan.

Í Kanada sá hann hins vegar um peningaþvætti að sögn lögreglumannsins Carl Mattinen, sem fór fyrir rannsókninni þar í landi. Peningaþvættið fór fram í gegnum lögleg spilavíti í Kanada, en Mattinen sagði samtök Figliomeni hafa náð að þvo yfir 70 milljónir Kanadadollara á nokkurra ára tímabili.

Hópur Figliomenis hélt einnig úti ólöglegum spilavítum, sem einnig var lagt hald á. Þá lagði lögregla hald á 27 heimili og 23 lúxusbifreiðir, m.a. einn Ferrari-bíl sem metinn er á 880.000 Kanadadollara.

Að sögn lögreglu var bílaleiga einnig hluti af peningaþvætti samtakanna.

mbl.is
Bækur til sölu
Til sölu ýmsar áhugaverðar bækur um ættfræði og byggðasögu, þjóðsögur og ýmsan a...
Ertu komin í saumaskap ?
Nýjar og notaðar saumavélar í úrvali. Nýjar vélar með 3 ára ábyrgð. Notaðar véla...
Rafknúinn lyftihægindastól
Til sölu rafknúinn lyftihægindastól frá Eirberg kostar nýr 124 þ Upplýsingar au...
Gisting við flugvöll...
Lítið og kósí sumarhús við lítinn flugvöll á kjarri vöxnu landi á suðurl. 2 nætu...