Milljarður til höfuðs hryðjuverkamanni

Mike Pompeo á fundinum í Buenos Aires í dag.
Mike Pompeo á fundinum í Buenos Aires í dag. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa boðið sjö milljónir dala, tæpar 900 milljónir íslenskra króna, fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku manns sem grunaður er um samstarf við hryðjuverkasamtökin Hezbollah og ber ábyrgð á árás á samkomuhús gyðinga í Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, árið 1994 er 85 létu lífið.

Frá þessu greindi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á ráðstefnu í Argentínu um varnir gegn hryðjuverkum en hana sóttu fulltrúar Bandaríkjanna og nokkurra Suður-Ameríkuríkja.

Bandarísk yfirvöld segja manninn, sem gengur undir nafninu Salman al-Reda, vera höfuðpaurinn bak árásarinnar og að hann hafi stýrt fleiri hryðjuverkaárásum Hezbollah frá þeim tíma.

Hezbollah-samtökin skilgreina sig sem stjórnmálaflokk og aðgerðasinna en þau hafa aðsetur í Líbanon. Á stefnuskrá þeirra er íslömsk þjóðernishyggja og andsemítismi, en samtökin eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Bandaríkjunum, Ísrael, Argentínu, Evrópusambandinu og fleiri ríkjum og ríkjasamtökum.

mbl.is