Öflugur jarðskjálfti í Aþenu

Upptök skjálftans eru talin vera um 22 km fyrir utan …
Upptök skjálftans eru talin vera um 22 km fyrir utan Aþenu. Kort/Google

Öflugs jarðskjálfta varð vart í Aþenu, höfuðborg Grikklands, nú fyrir stuttu. Hefur hann valdið rafmagnsleysi í hlutum borgarinnar og slegið út símalínur.

Jarðskjálftinn mældist 5,1 og eru upptök hans talin vera á 13 km dýpi um 22 km fyrir utan Aþenu.

BBC hefur eftir sjónarvottum að fólk hafi hlaupið út á götur og yfirgefið háhýsi er skjálftinn reið yfir.

Litlar fregnir hafa enn borist fregnir af alvarlegum skemmdum af völdum skjálftans, né heldur hvort einhverjir hafi slasast. Einn ferðamaður slasaðist þó að sögn grískra fjölmiðla þegar hann fékk yfir sig múrklæðningu og þá er vitað til þess að bygging sem stóð tóm hafi hrunið.

Nokkurra eftirskjálfta hefur þá orðið vart.

Grískir fjölmiðlar segja skjálftans ekki hvað síst hafa orðið vart í miðborg Aþenu og hafa fregnir borist af því að björgunarsveitir hafi bjargað tugi manna sem voru fastir í lyftum vegna rafmagnsleysis af völdum skjálftum.

Er þetta fyrsti jarðskjálftinn sem vart hefur orðið í Aþenu frá 1999.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert