Trump telur Johnson góðan kost

„Hann er eilítið ólíkur flestum öðrum, en fólk segir að …
„Hann er eilítið ólíkur flestum öðrum, en fólk segir að ég sé það reyndar líka,“ sagði Trump um Johnson. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti telur að Boris Johnson myndi standa sig „frábærlega“ sem næsti forsætisráðherra Bretlands fari svo, eins og margt bendir til, að Johnson verði kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins í næstu viku.

„Mér líkar vel við hann,“ sagði Trump við blaðamenn á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í dag og bætti því við að hann og Johnson hefðu rætt saman í síma í gær og að þeim kæmi vel saman.

„Hann er eilítið ólíkur flestum öðrum, en fólk segir að ég sé það reyndar líka,“ sagði Trump, sem er fullviss um að hann og Johnson muni eiga gott samband.

„Hann á eftir að standa sig frábærlega,“ sagði Trump, sem hefur ekki lýst yfir sambærilegri aðdáun á fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, Theresu May.

Hann hélt áfram að gagnrýna hana í dag og sagði hana hafa staðið sig „mjög illa“ við að koma Bretlandi út úr Evrópusambandinu. Sagðist Trump telja að Johnson gæti lagfært stöðuna.

Trump telur að Johnson geti gert betur en Theresa May …
Trump telur að Johnson geti gert betur en Theresa May við að koma Bretlandi út úr Evrópusambandinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert