Upplifði bæði hræðslu og reiði

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, mann það vel þegar honum var …
Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, mann það vel þegar honum var sagt sem barni að „fara til síns heima“. AFP

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, rifjaði í dag upp hvernig tilfinning það var sem barn að vera sagt „að fara aftur til síns heima“. Twitter-árásir Donald Trump Bandaríkjaforseta á fjórar þingkonur hafa verið mikið í umræðunni í vikunni og hrópuðu stuðningsmenn forsetans á fundi með Trump í Norður-Karólínu á miðvikudag „Sendið hana til baka!“ og vísuðu þar til Ilh­an Omar, múslimskr­ar þing­konu Minnesota­rík­is.

Kynþáttafordómar í ummælum forsetans um þingkonurnar hafa sætt harðri gagnrýni og er Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í hópi þeirra sem hafa fordæmt orð hans. Sagði May orðfæri Trumps „fullkomlega óásættanlegt“.

Javid er af pakistönsku bergi brotinn. Foreldrar hans eru múslimar og fluttu til Bretlands árið 1969, áður en hann fæddist. Hann hvatti opinbera aðila til að gæta að málfari sínu. Sagði Javid boðskap fordóma í garð innflytjenda kynda undir hættulegum aðskilnaði.

„Víðs vegar um heim hefur popúlismi og jafnvel opinskáir kynþáttafordómar komið öfgaöflum til valda,“ sagði Javid er hann kynnti uppfærðar aðgerðir breskra stjórnvalda gegn öfgasamtökum.

„Ég kem úr innflytjendafjölskyldu og ég veit hvernig tilfinning það er að vera sagt að fara aftur til míns heima.“ Rifjaði hann upp að hafa upplifað hræðslu, reiði og verið ráðvilltur eftir þetta.

„Við verðum að taka á þeirri mýtu um innflytjendur sem öfgamenn nota til að breikka gjána,“ sagði hann. „Við vitum að þeir ýkja skalann til að kynda undir ótta og nota innflytjendur sem staðgengla kynþátta.“

Javid sagði öfgamenningu hafa dreifst út frá samtökum á borð við Ríki íslams og yfir á ystu vængi hægri og vinstri stjórnmálaafla. Kvað hann aukinnar hörku gæta nú í stjórnmálaumræðum, sem fyrir vikið væru ekki jafn uppbyggilegar.  

„Það þurfa allir að sinna sínu hlutverki. Fjölmiðlar mega ekki gefa öfgamönnum sviðsljósið. Lögreglan verður að grípa verstu brotamennina og opinberir einstaklingar verða að gæta að orðfæri sínu,“ sagði Javid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert