Birtu myndband af hertökunni

Hinir svonefndu byltingarverðir íranska hersins síga um borð í olíuskipið …
Hinir svonefndu byltingarverðir íranska hersins síga um borð í olíuskipið Stena Impero, sem er í sænskri eigu en siglir undir breskum fána. Skjáskot/Guardian

Ríkisfjölmiðill Íran birti í dag myndband af því þegar íranski herinn hertók breska olíuskipið Stena Impero í gær. Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, hvatti í dag Írana til að láta af hertökunni, sem hann sagði ólöglega og vekja upp „mjög alvarlegar spurningar“ um öryggi breskra skipa og annarra sem eiga leið um Hormuz-sund.

Bresk stjórn­völd kyrr­settu ír­anskt ol­íu­skip við Gíbralt­ar 4. júlí þar sem talið var að það hygðist sigla með olíu til Sýrlands í trássi við reglur Evrópusambandsins. Hafa Íran­ir í kjöl­farið reynt að svara í sömu mynt og kraf­ist þess að skipið, Grace 1, verði leyft að halda þaðan.

Írönsk stjórnvöld þvertaka hins vegar fyrir að um hefndaraðgerð sé að ræða en þeir segja skipið hafa brotið gegn alþjóðlegum hafréttarlögum. Eru stjórn­end­ur skips­ins sakaðir um að hafa hunsað neyðarkall frá fiski­báti sem það hafi lent í árekstri við.


Hluti af áróðursherferð Írana

Þótt Stena Impero sigli undir breskum fána, er skipið í sænskri eigu. Rouzbeh Parsi, Mið-Austurlandafræðingur við Háskólann í Lundi, segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT, að ekki sé óvenjulegt að „byltingarverðir“ Íranshers, eins og þeir nefna sig, láti frá sér eigin myndbönd sem þessi.

„Frá þeirra sjónarhóli er það fágaður og vel undirbúinn áróður að deila svo frökkum myndböndum, og í þessu tilfelli á að sýna tæknilega getu hersins til að ná tökum á faratæki til sjós,“ segir Parsi. Hann segir að byltingarverðirnir haldi úti fjölmiðladeild sem útbúi myndbönd, myndir og annað til að styrkja málstað sinn í fjölmiðlum.

mbl.is