Sjaldséð fjöldamótmæli í Moskvu

Mótmælendur í miðborg Moskvu í dag.
Mótmælendur í miðborg Moskvu í dag. AFP

Rúmlega 20 þúsund manns komu saman í miðborg Moskvu í dag til að krefjast frjálsra og lýðræðislegra sveitarstjórnarkosninga þar í landi. Alexei Navalny, einn helsti andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta heima fyrir, var meðal mótmælenda sem kröfðust þess að óháðum frambjóðendum verði heimilt að bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningum í Moskvu sem fram fara í september.

Að mótmælafundi loknum gáfu 16 óháðir frambjóðendur út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir kröfðust þess að vera bætt á lista yfir frambjóðendur og sökuðu Sergei Sobyanin borgarstjóra og samverkamann Pútíns um að valda „pólitískri krísu“ í borginni.

Meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælunum var Lyubov Sobol, 31 árs lögfræðingur, og einn samstarfsmanna Navalny, en hún hefur verið í hungurverkfalli í viku til að mótmæla ákvörðun yfirvalda. „Ég er viss um að við munum vinna,“ sagði hún í ávarpi sínu til mótmælenda eftir að hafa fengið stuðning upp á svið.

Margir mótmælendur beindu orðum sínum beint að Vladimir Pútín Rússlandsforseta. „Pútín lýgur,“ sagði á einu skilti, og „Hættu að ljúga að okkur,“ á öðru.

Lögregla handtók nokkra mótmælendur á fundinum, og er haft eftir fjölmiðlum ytra að einn þeirra hafi handleggsbrotnað í átökum við lögreglu.

Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi.
Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert