Tilræðismenn Hitlers heiðraðir

AFP

Þýsk stjórnvöld heiðruðu í dag Claus Schenk von Stauffenberg, sem var ofursti í þýska hernum, og aðra þá sem tóku þátt í misheppnaðri tilraun á þessum degi árið 1944 til þess að ráða Adolf Hitler, einræðisherra Þýskalands, af dögum. 

Tilraunin til þess að vega Hitler átti sér stað í Úlfagreninu, höfuðstöðvum hans á austurvígstöðvunum. Von Stauffenberg kom fyrir sprengju í skjalatösku í ráðstefnuherbergi hvar Hitler var viðstaddur. Sprengjan sprakk en Hitler lifði af.

Von Stauffenberg reyndi í kjölfarið að taka völdin í Berlín, höfuðborg Þýskalands, ásamt félögum sínum sem einnig voru margir hverjir háttsettir í þýska hernum í trausti þess að tekist hefði að ráða Hitler af dögum. Markmiðið var að semja frið við bandamenn og binda enda á síðari heimsstyrjöldina. Tilræðið mistókst hins vegar og von Stauffenberg og fjöldi annarra sem tóku þátt í því voru teknir í lífi í kjölfarið.

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sagði í ræðu í dag í Berlín að mikilvægt væri að minnast tilræðisins á sama tíma og öfgamenn reyndu að komast til valda í stjórnmálum í Þýskalandi. Fram kemur í fréttinni að þar hafi Merkel vísað til flokksins Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) sem er orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í landinu.

Hins vegar segir í fréttinni að AfD líti svo á að þeir séu arftakar arfleifðar von Stauffenbergs og samherja hans. Flokkurinn sé þannig að berjast gegn stjórnvöldum í Þýskalandi sem hafi gerst sek um einræðistilburði.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina