Vilja að Íranar sleppi skipinu

AFP

Evrópuríki skoruðu í morgun á stjórnvöld í Íran að aflétta kyrrsetningu á olíuskipinu Stena Impero sem siglir undir fána Bretlands en er í sænskri eigu. Íranskir hermenn stöðvuðu skipið í Hormuz-sundi við mynni Persaflóa í gær.

Fram kemur í frétt AFP að bresk stjórnvöld hafi lýst því yfir að íranskir ráðamenn leiki hættulegan leik með því að kyrrsetja olíuskipið og hafa hvatt bresk skip til þess að forðast sundið. Um þriðjungur olíuflutninga á sjó fara um sundið.

Ráðamenn í Íran hafa sagt skipið hafa brotið gegn alþjóðlegum hafréttarlögum. Eru stjórnendur skipsins sakaðir um að hafa hunsað neyðarkall frá fiskibáti sem það hafi lent í árekstri við. Bretar segja íranska hermenn hafa farið um borð í annað skip sem siglir undir breskum fána en útgerð þess segir því hafa síðan verið sleppt.

Deilur hafa staðið yfir einkum á milli Bretlands og Íran eftir að bresk yfirvöld kyrrsettu íranskt olíuskip í Gíbraltar á dögunum sem talið var vera á leið til Sýrlands á þeim forsendum að það færi í bága við refsiaðgerðir Evrópuríkja gegn sýrlenskum stjórnvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert