Falinn fjársjóður fannst fyrir tilviljun

Hluti af fjársjóðnum sem fannst.
Hluti af fjársjóðnum sem fannst. AFP

Mikið magn fornra mynta, meðal annars frá tímum Rómarveldis, fannst fyrir ekki alls löngu síðan fyrir tilviljun í húsi í bænum Keszthely í Ungverjalandi. Fjársjóðurinn, sem er sagður ómetanlegur og er frá ýmsum heimshlutum og tímabilum í sögunni, fannst í húsi sem tilheyrði gettói fyrir gyðinga á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Talið er líklegt að gyðingur, sem síðar hafi verið fluttur í útrýmingarbúðir þýskra nasista, hafi falið fjársjóðinn. Núverandi eigendur hússins fundu sjóðinn, um 2800 gull- og silfurpeninga, í glerkrukkum þegar þeir unnu að endurbótum á kjallara þess.

Fjársjóðurinn er nú til sýnis á safni á sama tíma og unnið hefur verið að því að reyna að hafa uppi á þeim sem kunna að eiga réttmætt tilkall til hans. Takist það ekki rennur sjóðurinn til ungverska ríkisins. Þeir sem fundu fjársjóðinn hafa ekki viljað láta nafna sinna getið.

Tæplega eitt þúsund gyðingar bjuggu í bænum á stríðsárunum en eru nú aðeins um tólf. Talið er að um 600 þúsund ungverskir gyðingar hafi verið fluttir í útrýmingarbúðir, einkum til Auschwitz-búðanna í Póllandi, á stríðsárunum þar sem þeir voru myrtir.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert