Hættir áður en hann verður rekinn

Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, ætlar að segja af sér embætti …
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, ætlar að segja af sér embætti eftir helgi áður en hann verður rekinn. AFP

Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, tilkynnti í sjónvarpsþætti Andrews Marr í breska ríkissjónvarpinu BBC í morgun að hann ætlaði að segja af sér embætti í næstu viku þar sem hann gæti ekki setið í ríkisstjórn undir forystu Boris Johnson. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph greinir frá yfirlýsingu ráðherrans.

Hammond beitti sér gegn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir þjóðaratkvæðið þar í landi sumar 2016 þar sem meirihluti kjósenda kaus með því að fara út. Hann hefur síðan verið sakaður um að vinna gegn því að af útgöngunni geti orðið.

Reiknað er með að Johnson, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri London, sigri í leiðtogakjöri sem stendur yfir í breska Íhaldsflokknum en niðurstöðurnar verða kynntar á morgun. Líklegt er talið að sigur hans verði mjög afgerandi.

Hammond sagði í þættinum að hann myndi hætta áður en Theresa May hætti formlega sem forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins eftir helgi. Ítrekaði hann þá afstöðu sína að hann gæti ekki sætt sig við útgöngu án þess að samið yrði um hana.

Taldar hafa verið allar líkur á því að Hammond fengi ekki sæti í væntanlegri ríkisstjórn Johnsons. Hammond sagði í þættinum aðspurður að hann ætti ekki von á því að verða rekinn úr ríkisstjórninni enda ætlaði hann að segja af sér áður en til þess kæmi.

Johnson hefur ítrekað neitað að útiloka þann möguleika að Bretland kunni að ganga úr Evrópusambandinu án þess að samið verði sérstaklega um það. Þá hefur hann sagt að gengið verði úr sambandinu undir hans forystu 31. október í haust.

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, verður líklega næsti forsætisráðherra landsins.
Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, verður líklega næsti forsætisráðherra landsins. AFP
mbl.is