Hótuðu að senda skólabörn í fóstur

Engu barni er sagt neitað um mat í skólunum þrátt …
Engu barni er sagt neitað um mat í skólunum þrátt fyrir að það mæti peningalaust, Ljósmynd/Geronimo Giqueaux

Skólayfirvöld í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hafa verið harðlega gagnrýnd eftir að þau vöruðu við því að börn foreldra, sem ekki greiddu matarskuld við skóla á svæðinu, yrðu sett í fóstur.

Tugum foreldra brá heldur betur í brún þegar þeir fengu send bréf frá skólum barna sinna í Wyoming Valley í Pennsylvaníu vegna matarskulda, sem lægstar hljóðuðu upp á 10 bandaríkjadali.

„Barn þitt hefur verið sent í skólann án peninga, morgunmats og/eða hádegismats alla daga,“ segir í bréfinu. „Þetta er vanræksla á næringu barna ykkar, og þið getið verið send fyrir dómstóla fyrir að neita barni ykkar um mat. Ef þið farið fyrir dómstóla getur niðurstaðan verið sú að barnið er fjarlægt af heimilinu og sett í fóstur.“

Varaforseti skólastjórnar í Wyoming Valley sagðist í fyrstu hafa haldið að bréfið væri grín. Ekkert leyfi hefði fengist fyrir sendingu þess, sem bryti í bága við reglur skólanna, sem kveði á um að forstöðumaður þurfi að samþykkja allar bréfsendingar til foreldra. Sá sem hafi ritað bréfið og sent það hafi þegar beðist afsökunar.

Heildarskuld vegna ógreiddra morgun- og hádegisverða í skólum í Wyoming Valley nema um 22 þúsund bandaríkjadölum, en foreldrar fjögurra nemenda skulda yfir 440 bandaríkjadali hver. Flestir skulda þó undir 10 bandaríkjadölum, en 40 skulda meira en það og fengu umrætt bréf því sent heim til sín.

Að sögn varaforseta skólastjórnarinnar, sem er alls í forsvari fyrir sjö skóla, eru foreldrar reglulega hvattir til þess að greiða skuldir sínar, en það sé venjulega ekki gert með eins harkalegum hætti.

Þá sé engu barni neitað um mat í skólunum þrátt fyrir að það mæti peningalaust, enda myndu þau aldrei fallast á að barn væri svangt í skólanum.

Umfjöllun New York Times

Umfjöllun CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert