Mæðgur fundust látnar vikum síðar

Ancorage, stærsta borg Alaska.
Ancorage, stærsta borg Alaska. Wikipedia/Frank K.

Mæðgur, sem fundust látnar í íbúð í Anchorage í Alaska-ríki í Bandaríkjunum, höfðu verið látnar í nokkrar vikur áður en þær fundust. Elva Salazar og tveggja ára gömul dóttir hennar, Thalia Severance, fundust látnar í íbúð sinni á föstudag.

Samkvæmt Anchorage Daily News stendur rannsókn lögreglu enn yfir. Dánarorsök mæðgnanna er ókunn enn sem komið er, en ljóst er að þær höfðu verið látnar í einhverjar vikur áður en þær fundust.

Hvorki hafði verið tilkynnt um hvarf Salazar né dóttur hennar, en lögreglan telur ekki að neitt saknæmt hafi átt sér stað.

Salazar og barnsfaðir hennar, Sergio Severance, höfðu átt í forræðisdeilu vegna Thaliu um nokkurt skeið, en bæði vildu þau fá fullt forræði yfir dóttur sinni og sökuðu hvort annað um alkóhólisma og ofbeldi.

mbl.is