Áfrýjar lífstíðarvist í „amerísku gúlagi“

El Chapo er einn alræmdasti eiturlyfjabarónn síðustu áratuga.
El Chapo er einn alræmdasti eiturlyfjabarónn síðustu áratuga. AFP

Mexíkóski eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzman, einnig þekktur sem „El Chapo“ eða „sá stutti“, hefur áfrýjað lífstíðarfangelsisdómi sem hann hlaut í síðustu viku. Var hann meðal annars sakfelldur fyrir eiturlyfjasmygl og peningaþvætti fyrir dómstólum í New York-ríki. 

Guzman, 62 ára, er fyrrverandi foringi Sinaloa-glæpasamtakanna sem eru ein þau valdamestu í heimi. Hann hefur lengi verið einn af þekktustu og valdamestu glæpamönnum okkar samtíma, en hann var í febrúar sakfelldur fyrir að smygla hundruðum tonna af kókaíni, heróíni, metamfetamíni og kannabisi til Bandaríkjanna. 

Í kjölfar dómsuppkvaðningar fyrir alríkisdómstólum síðasta miðvikudag var Guzman færður í hið alræmda ADX öryggisfangelsi í Colorado-ríki. 

Þarf að greiða 12,6 milljarða dollara

Auk lífstíðarfangelsisvistar fékk Guzman einnig táknrænan 30 ára fangelsisdóm og var honum gert að greiða sekt upp á 12,6 milljarða Bandaríkjadollara eða því sem nemur um 1,566 milljörðum króna. Var fjárhæð sektarinnar reiknuð út frá áætluðum gróðatölum Sinaloa-samtakanna. 

Nýr lögmaður Guzman, Marc Fernich, fór fram á áfrýjun daginn eftir dómsuppkvaðninguna. Ákvörðunartaka dómara um áfrýjunarbeiðnina gæti tekið allt að eitt ár. 

Guzman er talinn vera áhrifamesti eiturlyfjabaróninn síðan kólumbíski Pablo Escobar var skotinn til bana af lögreglu árið 1993. Guzman var framseldur til Bandaríkjanna árið 2017 frá Mexíkó. 

Í ADX öryggisfangelsinu afplána aðeins hættulegustu glæpamenn Bandaríkjanna. Á meðal þeirra sem þar sitja nú inni eru Zacarias Moussaoui, einn þeirra sem skipulagði hryðjuverkin á Bandaríkin 11. september 2001, Terry Nichols, sprengjumaðurinn í Oklahomaborg og Dzhokhar Tsarnaev, sprengjumaðurinn í Boston-maraþoninu sem bíður nú aftöku sinnar. 

ADX fangelsið.
ADX fangelsið. AFP
mbl.is
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4 til leigu
Til leigu er 230 fermetra skrifstofurými í austurenda á 5. og efstu hæð Bolholts...
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann.Hafið samband við kattholt@katthol...
Þreyttur á reykinga- myglulykt, lausn ?
Eyðir flest allri ólykt, m.a. Myglu-gró ásamt og raka- reykinga- og brunalykt. ...
Lok á heita potta og hitaveituskeljar
Lok á heita potta og hitaveitu- skeljar Stærðir í cm: 200x200, 210x210, 220x220,...