Fundu kafbát eftir 50 ár á hafsbotni

Áhöfn Minerve á kafbátnum í höfninni í Marseille. Minerve fannst ...
Áhöfn Minerve á kafbátnum í höfninni í Marseille. Minerve fannst í gær eftir rúm 50 ár á hafsbotni. AFP

Franskur kafbátur sem hvarf með 52 manna áhöfn fyrir rúmum 50 árum er nú kominn í leitirnar. Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, lýsir fundinum sem „létti og tæknilegu afreki“.

Kafbáturinn Minerve var í nágrenni Toulon við suðurströnd Frakklands er hann hvarf í janúar 1968. Fjöldi tilrauna hefur verið gerður í gegnum tíðina til að finna kafbátinn og voru þær allar án árangurs. Parly tilkynnti fyrr á þessu ári að lífi yrði blásið á ný í tilraunir til að finna Minerve í kjölfar beiðna sem bárust frá ættingjum áhafnarinnar.

„Við vorum að finna Minerve,“ sagði Parly á Twitter nú í morgun. „Þetta er árangur, léttir og tæknilegt afrek. Mér eru nú efst í huga fjölskyldurnar sem hafa beðið þessara stundar svo lengi.“

Therese Scheirmann-Descamps, ekkja eins úr áhöfn Minerve, segir fundinn koma ...
Therese Scheirmann-Descamps, ekkja eins úr áhöfn Minerve, segir fundinn koma á óvart en vera gleðiefni fyrir fjölskylduna. AFP

Mikill léttir og tilfinningaþrungin stund

Við leitina nú var farið yfir gögn frá því Minerve hvarf, m.a. upplýsingar um hafstrauma, í von um að finna flakið með aðstoð nýrrar tækni.

AFP-fréttaveitan segir að það hafi verið bátur í eigu bandaríska Ocean Discovery-fyrirtækisins sem fann Minerve, sem lá um 45 km frá Toulon á 7.800 feta dýpi.

Ástæður þess að Minerve sökk hafa aldrei verið gefnar upp, en nokkur fjöldi mannskæðra kafbátaslysa varð víða um heim á sjöunda áratugnum.

„Þetta er mikill léttir og tilfinningaþrungin stund,“ sagði Herve Fauve, sonur skipstjóra kafbátsins, en hann hefur árum saman kallað eftir leit að kafbátnum. „Á vissan hátt voru þessir 52 sjómenn yfirgefnir.“

Leitarteymið vann m.a. út frá gögnum um sjávarföll og strauma, sem og jarðskjálftagögnum frá þeim tíma sem gáfu til kynna að sprenging hefði orðið um borð í kafbátinum þegar hann hrapaði niður á hafsbotninn.

Mynd af áhöfn Minerve um borð í kafbátnum. Myndin var ...
Mynd af áhöfn Minerve um borð í kafbátnum. Myndin var tekin árið 1965, en kafbáturinn sökk í janúar 1968. AFP

Sama skip og fann San Juan

Það var svo í gær sem Ocean Infinity fann Minerve, en bátur fyrirtækisins, Seabed Constructor, er m.a. útbúinn neðansjávardrónum með öflugar myndavélar.

Þess má geta að það var einnig Seabed Constructor sem fann í nóvember í fyrra argentínska kafbátinn San Juan, sem hvarf úti fyrir strönd Argentínu fyrr um árið. Þá kom skipið einnig að leit að verðmæt­um í flaki þýska her­skips­ins SS Mind­en um 120 sjó­míl­ur suðaust­ur af Kötlu­tanga í fyrra.

„Ég get ekki komið orðum að tilfinningum mínum,“ sagði Therese Scheirmann-Descamps, eiginkona eins úr áhöfn Minerve. „Þetta er einstaklega sefandi og það líka fyrir börn mín. Þetta kemur á óvart og er gleðiefni.“

Rannsóknarskipið Seabed Constructor í Reykjavíkurhöfn. Mynd úr safni.
Rannsóknarskipið Seabed Constructor í Reykjavíkurhöfn. Mynd úr safni. mbl.is/Golli
mbl.is
HARMÓNIKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Smíðum eftir máli, oft afgreiddar samdægurs, verð frá kr. 13.900,- Sími 615 175...
Viltu vita hvað er framundan ?
Segi þer það sem þeir sem farnir eru segja mer um framtíð þína. Bollar og tar...
Sumarhús- Gestahús - Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Bílalyftur vökva-drifnar gæðalyftur
EAE Bílalyftur allar gerðir í boði, skoðið úrvalið á www,holt1.is og facebook...