Hyggjast sniðganga ávarp Thunberg

Greta Thunberg er í Frakklandi þessa dagana og ávarpar þjóðþingið …
Greta Thunberg er í Frakklandi þessa dagana og ávarpar þjóðþingið þar á morgun, við litla kátínu hluta þingmanna. AFP

Hluti franskra þingmanna er á móti því að sænska unglingsstúlkan og umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg fái að ávarpa þjóðþingið þar í landi á morgun. Einhverjir þeirra hyggjast sniðganga ræðu hennar og hvetja aðra til þess að gera slíkt hið sama.

Thunberg var boðið að ávarpa þingið af hópi 162 þingmanna þvert á flokka og hafa þingmenn úr hinum hægrisinnaða Repúblikanaflokki og ögrahægriflokknum Rassemblement national (áður Front National), lýst yfir vanþóknun sinni á því og hefur Thunberg meðal annars verið kölluð „Justin Bieber vistfræðinnar.“

Gullaime Larrive, þingmaður Repúblikanaflokksins, hvetur þingmenn til þess að sniðganga ávarp Thunberg og segir að til þess að berjast gegn hamfarahlýnun jarðar þurfi „árangur í vísindum og hugrekki í pólítík, ekki gúrú með dómsdagsspár“.

Julien Aubert, samflokksmaður Larrive, sagði að fólk ætti ekki að búast við því að hann myndi fagna „spákonu í stuttbuxum“ sem hefði verið tilnefnd til „hræðsluverðlauna Nóbels“, en Thunberg var sem kunnugt er tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels.

Sebastian Chenu, þingmaður RN, sagði að hann „yrði ekki neyddur til þess að krjúpa“ fyrir Thunberg, sem hann kallaði svo „Justin Bieber vistfræðinnar“ og vísaði þar vísast til þeirra vinsælda sem Thunberg nýtur hjá ungu fólki, rétt eins og kanadíski söngvarinn.

Emmanuel Macron hefur gert mikið til þess að reyna að sannfæra unga kjósendur í Frakklandi um að honum sé treystandi til þess að takast á við loftslagsvánna, en í flokki hans, Lýðræði á hreyfingu, eru þó ekki allir jafn sannfærðir um ágæti Thunberg.

Sylvian Maillard þingmaður flokksins segist hið minnsta ekki ánægður með skólaverkföllin, sem Thunberg hefur boðað til á meðal nemenda víða um heim.

Önnur hitabylgja sumarsins er yfirvofandi í Frakklandi og búa Parísarbúar sig undir að hitamet borgarinnar, sem staðið  hefur óhaggað frá 1947, gæti fallið á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert