Skilja börnin eftir úti í skógi

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. AFP

Rétt eftir klukkan 22:00 staðnæmist bifreið við skógarjaðar í Austerlitz í Hollandi. Út stíga þrjú börn úr skátahreyfingunni í Hollandi, öll á aldrinum 12 til 15 ára. Þau taka bakpoka sína úr bifreiðinni sem í kjölfarið brunar af stað. Þau hafa verið skilin eftir og eiga að bjarga sér alfarið sjálf.

Þau eru mörgum kílómetrum frá búðum og einungis með frumstæðan áttavita til að styðjast við í göngunni til baka. Myrkrið er skollið á og þau eiga erfitt með sjá. Þau píra augun í átt að skóginum og reyna að finna hentugan stíg til að ganga á.

„Gæti þetta verið leiðin?“ spyr einn drengurinn. „Gæti verið,“ svarar 12 ára gamli flokksforinginn.

Og af því að það var ekkert annað í stöðunni héldu þau af stað inn í myrkrið.

Svona lýsir blaðamaður NYT hollensku hefðinni sem kölluð er „dropping“. Hefðin gengur út á að taka hópa af börnum, yfirleitt á táningsaldri, og fara með þau út í skóg, oft með bundið fyrir augun, þar sem þau eru skilin eftir og þurfa að finna leiðina til baka í búðir. Það getur tekur þau allt að 5 klukkustundir.

Stundum er þeim fylgt eftir af fullorðnum en þeir eru þar einungis til að passa upp á öryggi barnanna og leiðbeina þeim ekki.

Athöfnin endar ekki alltaf vel

Líklegast yrði eitthvað sagt hér á landi ef slík hefð yrði órjúfanlegur hluti af þjálfun skáta og hafa nágrannaþjóðir Hollendinga gagnrýnt þetta nokkuð. En Hollendingar gera hlutina á sinn hátt og það hefur lengi tíðkast að kenna börnum þar í landi að vera ekki of háð foreldrum sínum heldur vera sjálfum sér næg og sjálfstæð.

Athöfnin hefur Þó ekki alltaf endað vel og ef skoðaðar eru gamlar fréttir frá Hollandi má finna ýmis dæmi þess. Árið 2012 greindu þýskir fjölmiðlar frá fimm hollenskum drengjum sem stunduðu athöfnina þar í landi en neyddust á endanum til þess að hringja í þýsku lögregluna og óska eftir aðstoð þar sem þeir höfðu náð að festa sig milli veggs og loftræstirörs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert