300 farast í flóðum vegna monsúnrigninga

Götumynd frá Katmandú í Nepal þar sem flóð af völdum …
Götumynd frá Katmandú í Nepal þar sem flóð af völdum monsúnrigninganna hafa valdið skemmdum. Monsúnrigningarnar hafa þegar kostað yfir 300 manns lífið í Nepal, Bangladess og á Indlandi. AFP

Yfir 300 manns hafa farist í miklum flóðum á Indlandi, í Nepal og Bangladess sem orðið hafa af völdum monsúnrigninga. Reuters fréttaveitan greinir frá og segir nú byrjað að draga úr rigningunni og vatnsyfirborð sé farið að lækka á þeim stöðum sem verst urðu úti.  

Flóðavatn hefur farið yfir stór landsvæði í austurhluta Indlands þar sem margar ár hafa flætt yfir bakka sína og segja indversk yfirvöld 102 manns hafa farist í Bihar fylki. 47 manns hið minnsta hafa þá farist í Bangladess undanfarnar tvær vikur og 120 er enn saknað.

Hafa millj­ón­ir þurft að flýja heim­ili sín á Indlandi, í Nepal, Bangla­dess og Pak­ist­an vegna flóða og aur­skriða af völdum mons­únrign­ing­anna og er óttast að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar.

Íbúar í Bihar á Indlandi vaða hér í flóðavatni á …
Íbúar í Bihar á Indlandi vaða hér í flóðavatni á götu borgarinnar Sitamarhi til að komast leiðar sinnar. AFP

Reuters segir vatnsyfirborð enn fara hækkandi í tveimur ám í Bagladess og þar sé enn talin hætta á flóðum í fimm héruðum í miðhluta landsins. Eiga yfirvöld í vandræðum með að koma neyðarvistum til þeirra sem eru strandglópar.

„Við höfum nóg af neyðarvistum, en vandinn er að koma þeim til fólks,” sagði Foyez Ahmed, hjá Bogra héraðinu í Bangladess. „Okkur skortir samgöngutæki til að komast á þau svæði sem eru undir mestu vatni.”

Spáð er áframhaldandi úrhellisrigningu í fjórum héruðum Kerala fylkis á Indlandi á næstunni.

Mons­únrign­ing­arn­ar standa yfir frá júní og fram í sept­em­ber og skilja flóð og aur­skriður þeirra vegna eft­ir sig slóð eyðilegg­ing­ar ár hvert. Um 1.200 lét­ust í rign­ing­un­um í fyrra, en þá voru þær hinar verstu í Ker­ala á Indlandi í 100 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert