Gerði grín að fórnarlömbum fellibylsins

Hundruð þúsunda íbúa Púertó Ríkó hafa mótmælt á götum úti.
Hundruð þúsunda íbúa Púertó Ríkó hafa mótmælt á götum úti. AFP

Yfirvöld í Púertó Ríkó hafa gefið út heimild til húsleitar hjá ríkisstjóra eyjunnar vegna gruns um spillingu og ummæli hans og annarra háttsettra embættismanna um samkynhneigða og fórnarlömb fellibylsins sem gekk yfir eyjuna árið 2017 og varð yfir 3.000 að bana.

Hópspjalli tólf háttsettra embættismanna í Púertó Ríkó, þar sem þeir gera m.a. grín að samkynhneigðum og fórnarlömbum fellibylsins, var lekið fyrr í mánuðinum og hafa hundruð þúsunda íbúa þessa sambandssvæðis Bandaríkjanna í Karíbahafinu streymt á götur út og krafist afsagnar ríkisstjórans.

Leitarheimildin var gefin út í gær, sama dag og fjölmennustu mótmælin til þessa fóru fram, en ekki hefur fengist staðfest hvort hún hafi enn verið nýtt. Þá hefur þess verið krafist að hinir embættismennirnir ellefu láti farsíma sína af hendi.

Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó.
Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó. AFP

Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, er meðal annars grunaður um að hafa misnotað fé sem átti að fara til fórnarlamba fellibylsins og í uppbyggingu í kjölfar hans.

Hann hefur þegar lýst því yfir að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri á næsta ári, en neitar að stíga til hliðar sem ríkisstjóri á þessari stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert