Í árekstri með bíl fullan af metamfetamíni

Ástralskir lögreglumenn með metamfetamín. Mynd úr safni.
Ástralskir lögreglumenn með metamfetamín. Mynd úr safni. AFP

Ástralska lögreglan handtók mann nokkurn í gær eftir að flutningabíll sem hann ók lenti í árekstri við kyrrstæðan lögreglubíl framan við lögreglustöð í Sydney í Ástralíu. Flutningabíllinn reyndist smekkfullur af metamfetamíni.

Maðurinn, sem er 28 ára og talinn er hafa verið að sendast með fíkniefnin, ók harkalega utan í lögreglubílinn og stakk svo af.

Lögregla hafði uppi á honum í einu af úthverfum borgarinnar um klukkutíma síðar.

Þegar leit var svo gerð í bílnum fundust þar 273 kg af metamfetamíni og er söluandvirði þess talið nema um 140 milljónum dollara (17,5 milljörðum kr.).

BBC hefur eftir áströlsku lögreglunni að enginn hafi slasast í árekstrinum, en verulegar skemmdir hafi orðið á lögreglubílnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert